Sveitarfélag í vexti

Allir þekkja að traustur rekstur er forsenda velferðar. Það á jafnt við um heimili sem sveitarfélag.  Á fundi bæjarstjórnarfundi í gær fór fram seinni umræða um fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir næsta ár og er skemmst frá því að segja að rekstur Sveitarfélagsins Ölfuss er í blóma. Fyrirhugað er að á næsta ári skili rekstur samstæðu hátt í 300 milljónum í afgang og rekstur A-hluta um 140 milljónum. Sá rekstrarhagnaður verður allur nýttur til áframhaldandi uppbyggingar og þjónustuaukningar fyrir íbúa og því hvergi slegið af.

Jákvæðni og þjónusta við íbúa er forsenda velgengni

Fyrir um fjórum árum settumst við, frambjóðendur D listans, niður og reifuðum áherslumál færi svo að við fengjum brautargengi í kosningunni 2018. Mikill einhugur var innan hópsins um að nauðsynlegt væri að keyra upp jákvæða umfjöllun um sveitarfélagið okkar og hagnýta þau mýmörgu sóknartækifæri sem svæðið hefur að geyma. Það er virkilega ánægjulegt að sjá hversu vel hefur tekist til, þó auðvitað sé mikið verk eftir. Íbúafjölgun hefur verið um 20% á þessu kjörtímabili og gríðarleg eftirspurn er eftir húsnæði og byggingarlóðum. Svo mikil að um tíma var ekkert hús til sölu í sveitarfélaginu og það því í raun og veru uppselt. Það skal svo sem engan undra enda mælast íbúar sveitarfélagsins þeir ánægðustu í viðhorfsmælingu Byggðastofnunar.

Grunnskólinn – Hönnun á viðbyggingu og stórsókn í upplýsingatækni

Við höfum löngum verið öfunduð af skólunum okkar, bæði leik- og grunnskólum. Við erum stolt af því starfi sem fer þar fram og getum óhikað barið okkur á brjóst. Í skólunum okkar vinnur gott fólk ötult starf og sinna börnunum okkar af alúð og kærleik. Það er umtalað hversu vel börnin okkar eru undirbúin þegar þau halda áfram í framhaldsnám. Hröð fjölgun íbúa og þá ekki síst í hópi barnafjölskyldna kallar á að hugað sé að áframhaldandi uppbyggingu á skólahúsnæði. Á komandi ári verður því ráðist í hönnun á frekari uppbyggingu og stækkun skólans. Er þar meðal annars horft til þess að tengja skólann betur við íþróttahúsið samhliða því að fjölga kennslustofum og stoðrýmum. Skólinn er þó svo langtum meira en húsnæðið.  Nýverið var skipaður starfshópur í Grunnskólanum í Þorlákshöfn sem hefur það hlutverk að fara yfir upplýsingatæknimál. Til stendur að færa kennslu í meiri mæli á stafrænt form enda nauðsynlegt að skólinn fylgi þeirri tækniþróun sem orðið hefur á undanförnum árum. Því fylgir mikil fjárfesting í endurnýjun á búnaði og hefur bæjarstjórn sett 10 milljónir í verkefnið á næsta ári. Þá er ekki úr vegi að greina frá því að haldið var áfram að stækka Grunnskólann í Hveragerði ma. til að þjónusta íbúa okkar í dreifbýlinu. En Sveitarfélagið Ölfus á 14% eignarhlut í þeim skóla og hefur um 140 milljónum verið ráðstafað í uppbyggingu skólans á þessu kjörtímabili. Stefna sveitarfélagsins er nú sem endranær að veita börnum og fjölskyldum þeirra framúrskarandi þjónustu, sama hvar þau eru búsett.

Leikskólaplássum fjölgað

Þjónusta við börn er og verður eitt helsta áherslumál okkar sem nú leiðum samfélagið. Fjölgun íbúa kallar nú á nýjan leikskóla sem staðsettur verður í nýju hverfi sem rís vestan Þorlákshafnar. Er þar um að ræða lang stærstu fjárfestingu sveitarfélagsins í áratugi. Með framkvæmdinni verður ekki einungis mögulegt að fjölga leikskólaplássum mikið og taka inn yngri börn en áður heldur eykst einnig valfrelsi foreldra þegar kemur að áherslum í skólastarfi, skólamenningu og uppeldisstefnu. Er það vel. Á nýju ári verður einnig tekin í notkun ný kennslustofa við Leikskólann Bergheima sem rúma mun allt að 20 börn. Með þessu er hægt að tryggja að leikskólapláss séu næg og unnið gegn biðlistum.  Einlægt markmið okkar er að skapa gott og framsækið umhverfi fyrir fjölskyldur og mikilvægt að fjárfestingar sveitarfélagsins taki mið af því.

Innviðauppbygging fyrir eldri borgara

Á árinu sem senn er að líða voru fjórar nýjar og glæsilegar íbúðir við Níuna teknar í notkun. Á næsta ári verður farið í næsta áfanga í þeirri markvissu uppbyggingu sem þar er í gangi. Ætlunin er að stórbæta þjónustu dagdvalar með nýrri viðbyggingu vestan við matsalinn. Með því losnar einnig íbúð sem verður standsett og sett í leigu. Áætlað er að framkvæmdin kosti um 120 milljónir þá er ótalið þeir fjármunir sem settir verða í hönnun og undirbúning á næsta áfanga sem áætlað er að ráðast í fljótlega.  Þá má einnig nefna að áframhald verður á átakinu „heilsuefling eldri borgara“  sem hófst núna í haust og hefur heppnast ótrúlega vel.

Álögur á íbúa lækkaðar

Sterkur fjárhagur sveitarfélagsins hefur gert okkur kleift að lækka álögur á íbúa. Fasteignagjöld eru t.a.m. lægst hér í samanburði við önnur sveitarfélög á Suðurlandi. Á sama tíma hefur markaðsvirði eigna hækkað umtalsvert og þar með eignarhlutfall íbúa. Á næsta ári verður gengið en lengra og álagningarprósenta fasteignagjalda lækkuð enn frekar. Þetta er fjórða árið í röð sem álagningarhlutfallið er lækkað og nemur lækkunin 18% samtals eða úr 0,38% í 0,31%.

Stórsókn atvinnulífsins

Hlutverk okkar hjá sveitarfélaginu er ekki það að standa í umsvifamiklum atvinnurekstri utan okkar grunnþjónustu. Okkar skylda er að finna frumkvæði einstaklinga farveg og fyrirtækjum jarðveg sem þau fá þrifist í. Við Þorlákshafnarbúar þekkjum af okkar 70 ára sögu að velmegun okkar er nátengd vexti hafnarinnar. Minnug þessa höfum við nú tekið ákvörðun um stærstu einstöku framkvæmdir í sögu hafnarinnar hér í Þorlákshöfn. Þegar hefur verið skrifað undir samninga um framkvæmdir við lengingu Suðurvarargarðs um 250 metra og færslu Suðurvararbryggju um 35°. Þá verður austurgarðurinn styttur um 80 m til að auðvelda stórum skipum siglingar um höfnina auk þess sem Skarfaskersbryggja verður lengd um 30 m. Þessum framkvæmdum mun ljúka í lok árs 2023. Samhliða þessum miklu framkvæmdum verður ráðist í dýpkanir og annan frágang sem ljúka mun árið 2024. Heildarkostnaður þessara framkvæmda er áætlaður rúmlega 4 milljarðar og eru þessir áfangar að fullu fjármagnaðir.

Í þessu greinarkorni hef ég eingöngu tæpt á fáeinum verkefnum sem við vinnum nú að. Ótalin eru mörg önnur framfaraverkefni svo sem innleiðing barnasáttmálans, uppbygging rafíþrótta, ný rennibraut í sundlaugina, tug milljóna gatnagerð, þróun miðbæjar, fagleg þróun félagsþjónustu og svo margt annað. Það eru forréttindi að búa og starfa í sveitarfélagi sem maður elskar og ég hlakka til að halda áfram að taka þátt í og setja mark mitt á þá miklu uppbyggingu sem hér er að eiga sér stað.

Grétar Ingi Erlendsson
Formaður Bæjarráðs