Sjómaðurinn og tónlistarmaðurinn Rúnar Gunnarsson, gaf í dag út nýtt lag. Tíminn er á þrotum heitir lagið.
Rúnar hefur um árabil unnið sem sjómaður á Fróða II ÁR-38, en í frítíma sínum hefur hann dundað sér við að semja lög á gítara sína.
„Ég stefni klárlega á plötu“ ,segir Rúnar aðspurður um hvort von sé á plötu frá honum.
Rúnar gerir þó ráð fyrir að platan komi ekki út fyrr en á næsta ári. Hann vilji ekki fara sér óðslega, heldur gefa sér góðan tíma í gerð plötunnar.
Það var Vignir Snær Vigfússon, gítarleikari í hljómsveitinni Írafár, sem sá um upptökustjórn og útsetningu lagsins sem og að spila á gítar.
Aðrir meðspilarar eru Benedikt Brynleifsson á trommur, Pétur Hjaltested á hljómborð, Róbert Dan Bergmundsson á bassa og þá sá Árni Þór Guðjónsson um gítarsóló.
Það verður gaman að fylgjast með framvindu mála í tónlistinni hjá Rúnari Gunnarssyni á komandi mánuðum.