Nýr stjórnandi hjá Lúðrasveit Þorlákshafnar

34. starfsár Lúðrasveitar Þorlákshafnar hefst 7.september. Æfingar fara fram á fimmtudagskvöldum kl. 20 í tónlistarskólaálmunni í Grunnskólanum í Þorlákshöfn. Margt nýtt fólk hefur flutt til Þorlákshafnar undanfarin misseri og í nærsveitir og máski leynast þar hljóðfæraleikarar, einhverjir sem vilja dusta rykið af hljóðfærinu sínu og kynnast í leiðinni fullt af fólki? Lúðrasveitin tekur fagnandi á móti nýju fólki og telur fullvíst að viðkomandi verði ekki svikinn af þeim félagsskap sem leynist í lúðró.

Vetrardagskráin er að taka á sig svip og víst er að nýrárstónleikarnir vinsælu verða haldnir. Þá er ýmislegt annað í pípunum sem ekki er hægt ljóstra upp að svo stöddu en aðdáendur sveitarinnar geta látið sig hlakka til!

Nýr stjórnandi

Snorri Heimisson er nýr stjórnandi lúðrasveitarinnar. Snorri útskrifaðist frá blásarakennardeild Tónlistarskólans í Reykjavík vorið 1997 með þverflautukennarapróf. Hann lærði á klarinett og fagott sem aukahljóðfæri meðan á náminu stóð. Haustið 1998 lá leiðin í konunglega konservatoríið í Kaupmannahöfn en þaðan útskrifaðist Snorri með Diploma í fagottleik vorið 2003.

Snorri hefur kennt á fagott  og í Tónlistarskólanum í Reykjavík, Tónskóla Sigursveins og Skólahljómsveit Grafarvogs. Hann stjórnaði Lúðrasveit verkalýðsins á árunum 2007-2011.  Haustið 2013 tók Snorri við stöðu stjórnanda Skólahljómsveitar Árbæjar og Breiðholts sem hann starfar við í dag. Snorri hefur gert fjöldann allan af útsetningum fyrir ýmsa hópa. Hann hefur leikið með Sinfóníuhljómsveit Íslands, hljómsveit Íslensku óperunnar, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, Kaputt hópnum, nútímahópnum Aton, Kammersveitinni Ísafold auk margra annarra hópa.

Við bjóðum Snorra hjartanlega velkomin til starfa og hlökkum til starfsins framundan.

Ágústa Ragnarsdóttir, formaður LÞ