Tónleikaröð á kaffihúsinu Hendur í Höfn – Fyrstu tónleikar á sunnudaginn

rosa01
Rósa Guðrún og Daníel

Eins og Þorlákshafnarbúum er flestum kunnugt þá opnaði kaffihúsið Hendur í Höfn síðasta vor en eigandinn er Dagný Magnúsdóttir glerlistakona og sælkeri. Hún hafði um árabil rekið glervinnustofu en vegna ástríðu sinnar fyrir matargerð og fallegu leirtaui, sem hún átti svo mikið af, lét hún drauminn sinn verða að veruleika og opnaði í sama húsnæði kaffihús þar sem ástríður hennar ráða för. Viðbrögðin hafa verið ótrúlega góð og hefur gengið framar björtustu vonum allt frá því kaffihúsið opnaði.

skuli01
Skúli Mennski

Nú gengur sá tími í garð þar sem skammdegið er sem svartast og þá er um að gera að finna sér eitthvað sem gleðir, kætir og nærir hug og sál. Hendur í Höfn í samstarfi við Ásu Berglindi ætlar að leggja sitt af mörkum til þess að svo geti orðið og bjóða upp á tónleikaröð næstu vikurnar þar sem öllum er velkomið að koma og njóta tónlistarinnar og allra þeirra dásamlegu kræsinga sem Dagný mun töfra fram.

Þau sem ríða á vaðið eru Rósa Guðrún Sveinsdóttir og Skúli Þórðarson, oftast kallaður Skúli mennski en saman munu þau halda tónleika næsta sunnudag, 27. október kl. 17.00. Þau eru um þessar mundir að undirbúa tónleikaferðalag um Norðurlöndin í nóvember þar sem þau ætla að kynna Skandinövum fyrir tónlist sinni. Skúli er að leggja lokahönd á sína fjórðu sólóplötu en Rósa er að vinna að sinni fyrstu. Með þeim spilar Daníel Helgason gítarleikari, en hann og Rósa eru saman í hljómsveitinni Robert the Roommate sem gaf út sína fyrstu sólóplötu fyrr á þessu ári. Skúli hefur verið iðinn við að koma fram um landið síðustu árin, ýmist einn eða með hljómsveit með sér og hefur meðal annars spilað á tónlistarhátíðum eins og Gærunni, Við djúpið og Aldrei fór ég suður. Skúli er framsækinn metnaðarfullur texta- og lagahöfundur og flytjandi. Kjörorð hans eru frelsi, virðing og góð skemmtun. Rósa hefur starfað sem tónlistarmaður um árabil og spilað og sungið með hinum ýmsu listamönnum, eins og Páli Óskari, Bubba, Lay Low, Moses Hightower o. fl. Síðustu árin hefur hún verið ein af ritvélunum hans Jónasar Sig, þar sem hún spilar á saxófón, flautu og syngur bakraddir. Um þessar mundir er Rósa að undirbúa sína fyrstu sóló plötu sem kemur út á næsta ári.

Stofubandið kemur svo fram föstudagskvöldið 1. nóvember og flytur dægurflugur úr ýmsum áttum og á ýmsum tungumálum og ekki síst lög sem allir geta tekið undir ef svo ber við. Meðlimir Stofubandsins eru Þóra Gréta Þórisdóttir sem þenur raddböndin, Markús Guðmundsson sem spilar á 6 strengi, Sævar Þór Guðmundsson á 4 strengi og Guðmundur Fannar Markússon sem spilar á timburbassa.

Þá mun hljómsveitin Dusty Miller koma fram 16. nóvember, en hún er tiltölulega ný á nálinni. Þrátt fyrir ungan aldur sveitarinnar hefur hún verið afkastamikil, bæði á sviði og í hljóðveri og mun fyrsta plata hennar líta dagsins ljós á næstu misserum. Þeir sem skipa hljómsveitina eru Elvar Örn Friðriksson sem sér um söng og píanó, Kári Árnason á bassa, Tómas Jónsson á hljóðgervla og hljómborð, Aron Ingi Ingvarsson á trommur og Rögnvaldur Borgþórsson á gítar. https://www.facebook.com/dustymillermusic

Að lokum verður svo notaleg stund með jólaívafi 7. desember, þar sem skötuhjúin Unnur Birna Björnsdóttir og Jóhann Vignir Vilbergsson koma fram með vel valin jólalög í bland við sín eigin lög. Þau eiga bæði rætur sínar að rekja á Suðurlandið þar sem Jói er uppalinn á Eyrarbakka og Unnur Birna er dóttir Bassa í hljómsveitinni Mánum. Þau hafa lengi spilað sitt í hvoru lagi en ákváðu að stofna dúett til að hemja alla sköpunargleðina sem á sér stað innan veggja heimilisins.

Aðgangseyrir á tónleikana er 1500 kr. og nánari upplýsingar má finna á Facebook síðu Hendur í Höfn og á hendurihofn.is.