Þór mætti Val á Hlíðarenda í Dominos deildinni í körfuknattleik í gærkvöldi. Skemmst er frá því að segja að Valur fór með sigur og urðu lokatölur 97-89.
Leikur Þórs var líklega sá slakasti sem liðið hefur spilað á þessu tímabili og áttu Valsmenn sigurinn fyllilega skilið. Heimamenn leiddu meirihluta leiksins þrátt fyrir að Þórsarar hafi aldrei verið langt undan.
Mike Cook skilaði sínu og var stigahæstur í liði Þórs með 32 stig. Baldur Þór átti flottan leik en hann skoraði 16 stig auk þess að gefa 6 stoðsendingar. Raggi Nat heldur áfram að gera góða hluti fyrir Þórs liðið en hann setti 14 stig, tók 10 fráköst og var með 10 varin skot.
Varnarleikur Þórs í gær var ekki að smella en Valsmenn tóku 35 sóknarfráköst í leiknum með fyrrum Þórsara, Birgi Björn Pétursson, fremstan í flokki. Hann átti stórleik og tók 25 fráköst í leiknum auk þess að skora 23 stig. Sóknarfráköst Þórsara voru aftur á móti 8 talsins og voru tveir leikmenn Þórs sem sáu um að taka þessa 8 bolta, Raggi og Sovic. Valsmenn tóku 67 fráköst í leiknum á móti 35 hjá Þórsurum en þar liggur í raun munurinn á liðunum í leiknum í gær.
Fyrsti sigur Valsmanna í deildinni staðreynd og þriðji tapleikur Þórs í röð eftir að hafa unnið fyrstu þrjá leikina. Næsti leikur Þórs er heimaleikur gegn Skallagrím 25. nóvember næstkomandi og þurfa strákarnir á góðum stuðningi að halda.