Frjálsíþróttakrakkar úr Þór gera góða hluti á Silfurleikum ÍR

frjalsar_silfurleikar01Rúmlega 20 krakkar úr Frjálsíþróttadeild Þórs kepptu á Silfurleikum ÍR í gær. Þetta er risastórt mót, alls rúmlega 730 krakkar á aldrinum 5-17 ára, frá 29 félögum alls staðar að af landinu. Mótið er haldið til að minnast afreks Vilhjálms Einarssonar á Olympíuleikunum í Sidney 1956 er hann fékk silfurverðlaun í þrístökki, fyrstur Íslendinga til að vinna til verðlauna á Olympíuleikum.

10 ára og yngri kepptu í svokallaðri fjölþraut í gömlu Laugardalshöllinni og stóðu þau frábærlega saman sem lið og skemmtu sér konunglega um leið. Í þessum aldursflokki fengu allir keppendur verðlaunapening fyrir þátttökuna og það voru stoltir framtíðar-frjálsíþróttakappar sem luku keppni þar. 11 ára og eldri kepptu í Frjálsíþróttahöllinni og er skemmst frá því að segja að árangur þeirra var glæsilegur. Allir bættu sig eitthvað og margir náðu frábærum árangri í nokkrum greinum, slógu m.a. tvö Íslandsmet.

Fannar Yngvi Rafnarsson setti Íslandsmet í þrístökki í sínum aldursflokki, stökk 12,98m, sem er auðvitað líka HSK met. Fannar kom líka fyrstur í mark í 200m hlaupi í nýju HSK meti 24,12 sek.

Styrmir Dan Steinunnarson setti Íslandsmet í þrístökki í sínum aldursflokki, stökk 12,68m – en þess má til gamans geta að fyrra metið átti Fannar Yngvi félagi hans síðan á Silfurleikunum í fyrra. Þetta er að sjálfsögðu líka HSK met, en Styrmir setti auk þess HSK met í 60m grindahlaupi og hástökki.

Í flokki 11 ára stúlkna setti Solveg Þóra Þorsteinsdóttir nýtt HSK met í hástökki, stökk 1,43 m og bætti sinn fyrri árangur verulega og í 600m hlaupi setti hún einnig HSK met á tímanum 1,59,57.

Viktor Karl Halldórsson kom í mark í 60m hlaupi á nýju HSK meti, 9,07 sek. Af þeim 11 HSK metum sem sett voru á mótinu féllu 8 í hlut Þórs í Þorlákshöfn – en alls náðu krakkarnir í 15 verðlaunapeninga á mótinu. Sannarlega frábær árangur hjá frjálsíþróttakrökkunum okkar og þjálfara þeirra Rúnari Hjálmarssyni sem gekk stoltur frá dagsverkinu í Laugardalshöllinni í gær. Hann og krakkarnir hafa æft vel og uppskera samkvæmt því. Æfingin skapar meistarann!

Hér að neðan má sjá myndir frá mótinu.

Sigþrúður Harðardóttir

[nggallery id=10]