Tónleikahelgi framundan í Þorlákshöfn

Hljómsveitin Drangar heldur tónleika í Ráðhúsinu á sunnudaginn.
Hljómsveitin Drangar heldur tónleika í Ráðhúsinu á sunnudaginn.

Það er ekki hægt að segja að lítið sé um að vera í bænum okkar. Undanfarið hefur menningin blómstrað í Þorlákshöfn og er þessi helgi engin undantekning þar á.

Leikfélagið heldur áfram sýningu sinni á Makalausri sambúð í Ráðhúsinu á laugardaginn klukkan 20 en einnig verða tvennir tónleikar í bænum um helgina.

dustymiller01
Dusty Miller spila á tónleikaröðinni á Hendur í höfn á laugardaginn.

Á laugardaginn heldur tónleikaröðin á Hendur í höfn áfram. Að þessu sinni er það hljómsveitin Dusty Miller sem mun leika fyrir gesti kaffihússins sem geta gætt sér á dýrindis kræsingum frá Dagnýju á meðan. Tónleikarnir hefjast klukkan 20 en Dagný ætlar að vera með 2 fyrir 1 á drykkjum frá 18-20 fyrir tónleikana.

Á sunnudaginn er það svo ofursveitin Drangar sem mæta í Þorlákshöfn og spila í Ráðhúsinu klukkan 20. Drangar er skipuð okkar manni Jónasi Sig og með honum eru Mugison og Ómar Guðjóns. Þeir eru á ferð um landið að kynna glænýja plötu sína sem kom út fyrir örfáum vikum síðan. Hægt er að panta miða á tónleikana á heimasíðu Dranga, drangar.is en einnig verður hægt að kaupa miða við innganginn að því gefnu að ekki verði orðið uppselt.