Skötubótin í þekktu tónlistarmyndbandi

Skötubótin í Þorlákshöfn skartar sínu fegursta í tónlistarmyndbandi hjá þekktri sænskri söngkonu en myndbandið er tekið allt upp á Íslandi. Söngkonan kallar sig Elliphant en heitir réttu nafni Ellinor Olovsdotter.

Myndbandið er við vinsælt lag söngkonunnar sem heitir Down On Life. Myndbandið hefst í Skötubótinni þar sem þrjár stúlkur, þar með talin söngkonan, sitja íslenska hesta. Í lokin er einnig mjög flott skot þar sem ströndin sést vel og í fjarska glittir í hús bæjarins.

Eftir tímamælingu Hafnarfrétta þá nýtur Skötubótin sín í næstum helmingi myndbandsins sem er í heildina 3 mínútur og 43 sekúndur. Þá má með sanni segja að Skötubótin sé í aðalhlutverki í þessu myndbandi sem yfir milljón manns hefur horft á. Hægt er að horfa á það hér að ofan.