Grunnskólinn í Þorlákhsöfn fékk góða heimsókn í dag þegar upptökulið frá Rúv kom ásamt Lay Low og Jónasi Sen til að undirbúa gerð nýrra sjónvarpsþátta.
Jónas Sen tónlistarmaður, gagnrýnandi og dagskrárgerðamaður sem hefur m.a. verið með þættina Tíu fingur (2006), Átta raddir (2010) og Tónspor (2012) á Rúv er að fara af stað með nýja sjónvarpsþáttaröð ásamt Birni Emilssyni, þar sem grunnskólakrakkar eru í veigamiklu hlutverki. Þættirnir verða sex talsins. Hann hefur fengið jafnmarga lagahöfunda til að vera með í þáttaröðinni, sem allir hafa skapað sér vinsælda meðal almennings. Þeir eru Megas, Ólöf Arnalds, Logi Pedro í Retro stefson, Sóley Stefánsdóttir, Ingó í Veðurguðunum og Lay Low. Lagahöfundarnir ætla að semja lag, eitt fyrir hvern þátt, sem á að vera frumflutt eingöngu af börnum og unglingum í tilteknum skóla. Hver þáttur er því helgaður einum lagahöfundi og einum skóla.
„Grunnskólinn í Þorlákshöfn varð fyrir valinu og fáum við afhent lag frá tónlistarkonunni Lay Low sem nemendunum er ætlað að útsetja, æfa og flytja svo í sjónvarpsþættinum sem mun verða sýndur næsta vetur,“ segir Ása Berglind Hjálmarsdóttir tónmenntakennari í Grunnskólanum í Þorlákshöfn.
Jónas segir að tilgangurinn með þáttunum sé fyrst og fremst sá að varpa ljósi á gróskuna í tónlistarmenningu barna og unglinga, sem sé ótrúlega mikil ef marka má viðburði á borð við Músíktilraunir og Söngkeppni Samfés. Krakkar geta verið afar skapandi ef þeir fá tækifæri til þess. Því sé mikilvægt í sjónvarpsþáttunum að krakkarnir sjái sjálfir um flutninginn og séu sem mest skapandi varðandi útsetningu og útfærslu, hljóðfæra- og raddsamsetningu.
„Hann mun taka viðtal við krakkana og við munum fá reglulegar heimsóknir frá Rúv þar sem þeir munu fylgjast með vinnuferlinu alveg þangað til við förum til Reykjavíkur til þess að taka lagið upp fyrir þáttinn,“ bætir Ása Berglind við. Þá munu einnig vera svipmyndir úr öðru skólastarfi Grunnskólans í Þorlákshöfn ásamt því að fjallað verður um sögu hans og helstu einkenni og er það mikilvægur hluti þáttarins.
Hópurinn sem fær það verkefni að útsetja lagið eru nemendur í valfaginu tónleikur sem er kennt á elsta stigi í fyrsta sinn nú í vetur. Þar er lögð mikil áhersla á skapandi starf og því lá það beint við að þau fengu tækifæri til þess að fást við þetta spennandi verkefni. Þetta eru þær Bergrún Gestsdóttir, Ólöf Selma Bárðardóttir, Talía Fönn Ottósdóttir, Birta Óskarsdóttir, Heiðrún Elva Björnsdóttir Ása Elín Helgadóttir og Arna Dögg Sturludóttir. „Þær fá alveg fjálsar hendur til þess að útsetja lagið hennar Lay Low og því spennandi að sjá hver útkoman verður en þær hafa verið að æfa sig í að útsetja lög með góðum árangri í vetur,“ segir Ása Berglind að lokum um þetta áhugaverða verkefni.
Í meðfylgjandi myndbandi má sjá stelpurnar flytja sína útgáfu af laginu Royals með söngkonunni Lorde.