Gunnsteinn R. Ómarsson, bæjarstjóri skrifar:
Gagnaveita Reykjavíkur ehf. (GR) og Sveitarfélagið Ölfus (SÖ) hafa gert með sér samning um lagningu ljósleiðara og rekstur gagnaflutningskerfis þar sem GR mun byggja upp og reka háhraða gagnaflutningskerfi, byggt á ljósleiðaratækni, í sveitarfélaginu. Kerfið verður í eigu GR sem einnig sér um rekstur þess en þjónusta til íbúa sveitarfélagsins verður í höndum þjónustuveitna.
GR rekur netkerfi sitt sem opið fjarskiptanet þar sem þjónustuveitur geta veitt viðskiptavinum sínum þjónustu á borð við Internet-, síma- og sjónvarpsþjónustu. Gagnvart heimilum gengur þessi samþætta þjónusta GR og þjónustuveitna undir vöruheitinu Ljósleiðarinn.
Samhliða uppbyggingunni sem nær til íbúðarhúsa býðst fyrirtækjum í atvinnuhúsum að fá ljósleiðaralögn og tengingu við símstöðvar þaðan sem fjarskiptafyrirtæki geta veitt þeim þjónustu.
Samkvæmt verkáætlun hefst undirbúningur verksins strax í byrjun febrúar 2014. Fyrirhugað er að hefja verklegar framkvæmdir við jarðvinnu og lagningu rörakerfis í Þorlákshöfn í apríl og í dreifbýlinu í júní. Þá er gert ráð fyrir að verklegum framkvæmdum, þ.m.t. tengingum ljósleiðara verði lokið og þjónusta geti hafist í október í Þorlákshöfn og í desember í dreifbýlinu.
Í Þorlákshöfn nær uppbygging á ljósleiðarakerfinu til þess svæðis sem afmarkað er með bláum línum á mynd 1. Um er að ræða öll íbúðarhús og þau atvinnuhús sem liggja í íbúðabyggð og falla innan þessa svæðis. Á svæðinu eru nú 453 íbúðarhús (544 heimili) en þegar er búið að leggja nokkuð af stofnlögnum og heimtaugarör hafa verið lögð í 81 hús. Auk þess gerir skipulag þéttbýlisins ráð fyrir 65 heimilum í húsum sem enn hafa ekki verið byggð og verða einungis stofnlagnir rörakerfis lagðar að þessum óbyggðu lóðum. Þau verða svo tengd við ljósleiðarakerfið samhliða afgreiðslu á heimtaugum annarra veitna Orkuveitu Reykjavíkur í framtíðinni.
Utan Þorlákshafnar nær uppbygging á ljósleiðarakerfinu til íbúðarhúsa á því svæði sem afmarkað er með bláum línum á mynd 2 eða rúmlega hundrað heimili. Hér er um að ræða öll heimili í sveitarfélaginu utan Selvogs en vegna mikilla vegalengda og fárra mögulegra tenginga þar er nú leitað annarra leiða við að bæta fjarskiptasamband á því svæði.
Forsenda uppbyggingar ljósleiðarakerfis GR utan Þorlákshafnar er sú að a.m.k. 85 heimili skuldbindi sig til að kaupa þjónustu um Ljósleiðarann í tvö ár frá tengingu. Þátttökukönnun fer fram í febrúar og leiðir hún í ljós hvort umræddur fjöldi náist. Í ljósi þeirra gæða og kjara sem í boði eru má gera ráð fyrir að þátttakan fari langt fram úr þessu viðmiði.
Heimtaugarör verða lögð að þeim húsum þar sem heimili hafa skuldbundið sig og stofnlagnir munu einungis ná til þeirra svæða þar sem heimtaugarör verða lögð.
Íbúðarhús sem ekki skuldbinda sig nú en sækjast síðar eftir að tengjast ljósleiðarakerfinu munu eiga þess kost gegn greiðslu stofngjalds sem nemur þeim kostnaði sem til fellur við tengingu þeirra á þeim tíma en slík tenging getur orðið kostnaðarsöm og því borgar sig engan veginn að bíða með þátttöku.
Fyrirtæki og frístundahúsaeigendur munu eiga þess kost að tengjast ljósleiðarakerfinu fyrir gjald sem nemur þeim kostnaði sem til fellur við viðkomandi tengingu. Á sama hátt munu fyrirtæki í Þorlákshöfn almennt eiga þess kost að tengjast á slíkum forsendum.
Í fjárhagsáætlun Sveitarfélagsins Ölfuss fyrir árið 2014 var gert ráð fyrir þátttöku í þessu verkefni. Ákveðið hefur verið, í samráði við Orkuveitu Reykjavíkur, að það fjármagn sem liggur í Uppgræðslusjóði Ölfuss verði innleyst og lagt í þetta verkefni. Með þessu móti mun 99% heimila í sveitarfélaginu eiga þess kost að tengjast ljósleiðara án þess að skattfé sveitarfélagsins verði að neinu leyti notað til verkefnisins. Samkvæmt samþykktum Uppgræðslusjóðs hefur ekki mátt skerða höfuðstól sjóðsins en ávöxtun hvers árs hefur verið úthlutað til uppgræðsluverkefna og í því ljósi hefur raunvirði sjóðsins farið lækkandi ár frá ári. Fjármagn sjóðsins mun nú gegna öðru hlutverki og ég er sannfærður um það að ávöxtun þess mun fara vaxandi ár frá ári langt inn í framtíðina samfélaginu öllu til heilla. Árangur af uppgræðsluverkefnum í sveitarfélaginu á undangengnum árum hefur verið góður og það munu skapast framtíðartækifæri til að styrkja slík verkefni áfram.
Það er von mín að íbúar Sveitarfélagsins Ölfuss fagni þeirri uppbyggingu sem nú stendur fyrir dyrum og að íbúar dreifbýlisins láti þetta tækifæri ekki framhjá sér fara.