Vatnsverksmiðjan Icelandic Water Holdings, sem staðsett er í landi Hlíðarenda í Ölfusi, hefur gert samning við stóra verslunarkeðju í Bandaríkjunum.
Keðjan heitir Whole Foods Market og er nú þegar farin að selja vatn Icelandic Glacial í verslunum sínum í Kaliforníu, Oregon, Washington, Arizona, Nevada og Hawaii. Whole Foods Market sérhæfir sig í lífrænt ræktuðum matvælum og leggur áherslu á sjálfbærni.
Framleiðsla og dreifing á Icelandic Glacial vatninu er að fullu kolefnisjöfnuð og hefur fyrirtækið hlotið fjölda viðurkenninga fyrir gæði, umhverfisvæna framleiðsluhætti og hönnun á umbúðum vatnsins en hönnunin þykir sérstök og hefur vakið mikla athygli.
Icelandic Water Holdings hefur lagt sitt að mörkum í að styðja íþróttastarf í Þorlákshöfn og eru þeir til að mynda aðal styrktaraðili körfuknattleiksdeildar Þórs til nokkurra ára.