Glaumur og gaman á 9-unni

asa_tonleikar01Þessa dagana eru þrír vaskir tónlistarmenn á ferð um landið en þau ætla sér að spila á öllum 65 hjúkrunar- og dvalarheimilum landsins á 30 dögum.

Yfirskrift tónleikanna er „Nú verður glaumur og gaman, nú gleðjist hver einasta sál“ og eru það  Tómas Jónsson, Ása Berglind Hjálmarsdóttir og Jökull Brynjarsson sem standa að verkefninu. Frítt er á alla tónleikana og öll gefa þau vinnu sína við þetta verkefni.

Þrátt fyrir að ekkert hjúkrunarheimili er að finna í Þorlákshöfn, þá ætla þau að renna við í höfnina í leiðinni og vera með tónleika á 9-unni á föstudaginn. „Það var bara ekki hægt að keyra framhjá Þorlákshöfn,“ segir Ása Berglind um tónleikana sem hefjast klukkan 20:30 og verður frítt inn.

„Þrátt fyrir að tónleikaröðin sé sérstaklega tileinkuð eldri borgurum þá eru allir velkomnir og sérstaklega hvetjum við aðstandendur eldri borgara í Þorlákshöfn að koma og eiga þessa stund saman,“ bætir Ása við að lokum um þetta glæsilega verkefni sem þau standa fyrir.

Hægt er að fylgjast með ferðalaginu á facebook síðu þeirra www.facebook.com/nuverdurglaumur