Blómatónleikar í Þorlákshöfn

einar_arnhildurMánudaginn 23. júní verður efnt til blómatónleika í Þorlákskirkju í Þorlákshöfn. Fram koma Einar Clausen, söngvari og Arnhildur Valgarðsdóttir, píanóleikari. Eins og fyrr segir er þema tónleikanna blóm, hlutverk þeirra og tilfinningagildi í ljóðasögn og dægurlögum.

Einar Clausen er fæddur í Reykjavík árið 1965. Hann hefur notið leiðsagnar margra hæfra söngvara og söngkennara og má í því sambandi nefna Alex Ashworth, David L. Jones, Ian Partridge, Ingu Jónínu Backman, Ólöfu Kolbrúnu Harðardóttur og Helene Karusso. Einar hefur starfað óslitið við tónlist frá árinu 1990. Hann hefur komið víða fram sem einsöngvari bæði með kórum og hljómsveitum.

Arnhildur Valgarðsdóttir stundaði píanónám á Akureyri og Skotlandi, útskrifaðist með kirkjuorganistapróf frá Tónskóla Þjóðkirkjunnar og stundar nú nám í jazzpíanóleik hjá Sunnu Gunnlaugs. Arnhildur hefur unnið með fjölmörgum tónlistarmönnum, hefur stjórnað og spilað með kórum, útsett, spilað inná diska, komið fram í útvarpi og sjónvarpi, samið kvikmyndatónlist og komið fram á fjölmörgum tónleikum á Íslandi sem og erlendis. Hún er nú organisti við Lágafellssókn auk þess sem hún kennir á píanó og stjórnar nokkrum kórum.

Leiðir Einars og Arnhildar hafa oft legið saman við athafnasöng og -leik í kirkjum höfuðborgarinnar og fljótlega fór að bærast með þeim hugmyndin að halda saman heila tónleika. Eftir langan vetur á Íslandi er fátt sem sálin þráir heitar en sól og hlýju og fallegan jarðargróður, því ákváðu þau Einar og Arnhildur að tileinka efnisskrá sína blómum. Fyrir utan hið líffræðilega hlutverk blómanna í vistkerfi jarðar, eru þau einskonar táknmál tilfinninganna. Til dæmis á hátíðarstundum, þegar sorgin knýr dyra eða þegar ástarloginn brennur, þá látum við blómin tala. Við tölum líka um lífsblómið, blómstrið eina hans Hallgríms Péturssonar og blómarósir svo dæmi séu tekin, blómalíkingamálið á Íslandi er frjósamt og fjölskrúðugt.

Í samræmi við fjölbreytileika náttúrunnar kennir og ýmissa grasa í efnisskrá tónleikanna. Öll fjalla lögin um blóm, nefna má td Liljuna, Fífilinn, Fjóluna og Rósina. Einar, hinn ástsæli og fjölhæfi söngvari, bregður fyrir sig ýmsum tungumálum svo sem þýsku, frönsku, færeysku, ensku og íslensku.

Einar og Arnhildur eru bæði þekkt fyrir hlýlega og skemmtilega sviðsframkomu og hlakka þau til að fá að leiða áheyrendur í gegnum blómagarð söngvanna.

Tónleikarnir hefjast klukkan 20:00 og er aðgangseyrir 2.000 krónur.