Kveðjupistill Matthíasar

matthias01Að því tilefni að ég hef yfirgefið Ægi, þá finn ég mig knúinn til að hafa nokkur orð um tíma minn hér. Fyrir það fyrsta er ágætt að hafa það á hreinu að ástæðan fyrir því að ég skipti um félag er einungis vegna fárra tækifæra inn á vellinum. Það að vera búsettur í Reykjavík og leika með Ægi Þorlákshöfn krefst þess óneitanlega að mikill tími manns fer í að sækja æfingar og leiki þar. Ofan á vinnu og nám þá er ekki mikið eftir að sólarhringnum til að eyða í aðra hluti. Þar af leiðandi er erfitt að réttlæta það fyrir sér að eyða öllum þessum tíma þegar maður fær færri tækifæri í liðinu en maður hefur viljað auk vinnutaps við ferðalög í leiki.

Engu að síður er ég gífurlega ánægður með tíma minn í Ægi, ég kom til liðsins í sumarglugganum 2009 og hef verið þar samfleytt þangað til nú og hefur Þorlákshöfn á skrítinn hátt verið mitt annað heimili. Þegar ég kom til liðsins hafði ég svosem ekki hugmynd um hversu lengi ég myndi tóra þarna en eftir á hyggja veit ég nákvæmlega hvað var þess valdandi að maður eyddi fimm árum í Ægi. Til að byrja með tóku allir í kringum liðið á móti manni með miklum hlýhug og eftir því sem á leið fór maður að læra að meta hversu óeigingjarnt starf fólkið í kringum klúbbinn leggur á sig. Allt frá stjórnarmeðlimum, húsvörðum, gæslufólki og til stelpnanna sem hafa staðið sveittar við að framreiða veislurétti fyrir kaffið eftir leiki. Þó svo að maður hafi oft bölvað því að þurfa að fara austur á æfingu þá var jafnan líka oft tilhlökkun fyrir því að komast út úr bænum í græna náttúruna og ferska sjávarloftið. Ofan á það eru aðstæður til fyrirmyndar og fá lið á landinu sem státa af því að eiga þrjá fyrirmyndar grasvelli sem hægt er að æfa á ofan á aðstöðuna sem fyrir er. Eftir því sem dvölin lengdist þá fór maður að bera kennsl á fleiri bæjarbúa og er ljóst að þar leynast víða meistarar. Einmitt vegna þessa, hef ég svarað því stoltur að ég spili með Ægi Þorlákshöfn þegar ég hef verið spurður hvar ég spila.

Sérkennilegt hefur þó verið að þrátt fyrir að ég hafi verið leikmaður liðsins í sex tímabil þá lék ég með sex mismunandi liðum. Slíkar voru mannabreytingarnar á milli tímabila að fyrstu leikir tímabilsins fóru jafnan í það að kynnast nýjum liðsfélögum og læra inn á hvorn annan, það kostaði okkur oftar en ekki nokkur stig. Sumarið 2012 var kjarninn af heimamönnum nær algjörlega dottinn út úr hópnum og tók þá við mikil upphafsvinna að manna hóp sem gæti komið liðinu upp um deild. Það var gert með því að sækja menn í bæinn, hefðbundinn fjölda af útlendingum og unga heimastráka. Það að æfa og spila knattspyrnu er að miklu leyti félagslegt og óhætt er að segja að sumarið 2012 small allt saman hjá okkur og komumst við loksins upp úr 3. deildinni. Það sumar mun ætíð lifa í minningunni hjá mér sem eitt ánægjulegasta sumar lífs míns. Það að verða vitni af fjöldanum öllum af bæjarbúum og fyrrverandi leikmönnum mæta á úrslitaleik okkar á Þorlákshafnarvelli gegn Magna frá Grenivík, sem var spilaður í grenjandi rigningu og 20 m/s var afar skemmtilegt. Það var ekkert sem gat stöðvað okkur það sumarið.

Í dag eru afar fáir leikmenn eftir af þeim hópi sem fór upp fyrir utan ungu heimastrákanna. Þrátt fyrir smæð bæjarfélagsins er í raun ótrúlegt hversu margir góðir leikmenn koma upp í gegnum Ægi. Það er því von mín og ósk að innan fárra ára verði Axel, Fannar, Pálmi, Arnar Logi, Keli o.fl. ennþá yngri leikmenn sem hafa dúkkað upp á æfingum við og við muni leiða liðið í átt að aukinni velgengni. Þeir hafa allir getuna og burði til þess og gott betur, ef þeir halda rétt á spilunum. Vegna þess að kjarninn eins og hann lagði sig hvarf úr liðinu fyrir fáum árum síðan þá hefur þurft að bíða eftir að næsta kynslóð sé tilbúin að taka við. Í mínum augum er það mikilvægast af öllu að mynda sterkan kjarna leikmanna sem mun spila með liðinu eins lengi og unnt er. Eðlilegt telst að skipta út ef til vill 4-5 leikmönnum hvert tímabil en undanfarið hefur þurft að sækja sirka 10-15 nýja leikmenn til að manna hópinn. Leikmennirnir sem gengu til liðs við Ægi nú í vetur og vor eru ungir og hafa komið vel út, því væri óskandi að sem flestir þeirra myndu halda áfram því þeir eru góðir leikmenn og eiga bara eftir að verða betri.

Ég yfirgef liðið sem leikjahæsti leikmaður þess af núverandi hóp, með 68 leiki í deild og bikar. Það að hafa verið í Ægi hefur gert mér kleift að kynnast fjöldanum öllum af ungum sem öldnum og íslenskum sem erlendum leikmönnum auk fólksins í kringum liðið og bæjarbúum í Þorlákshöfn yfir höfuð. Það að kynnast nýju fólki og umhverfi eflir og þroskar mann og býr maður að því alla eilífð. Fyrir það verð ég ævinlega þakklátur. Ég vona innilega að Ægi muni vegna vel í nánustu framtíð og mun um leið ekki útiloka það að snúa aftur en framtíðin fær að leiða það í ljós. Því vil ég óska Össa, Svenna, Alla og leikmönnum liðsins góðs gengis í sumar og vona að þeir nái settum markmiðum.

Með Ægiskveðju,
Matthías Björnsson