Stofnfundur og viðburðir Bókabæjanna austanfjalls

bokabaeir01Næstkomandi laugardag verður haldinn stofnfundur Bókabæjanna austanfjalls kl. 14 í sal Fjölbrautaskóla Suðurlands. Góðir gestir munu heiðra okkur með nærveru sinni , m.a. forseti Íslands, ráðherrar, bæjarstjórar, formaður rithöfundasambandsins, konunglegur stofnandi fyrsta bókabæjarins og fjölmargir áhugamenn um bækur og bókmenntir.

Af þessu tilefni er boðið upp á skemmtilega viðburði í Bókabæjunum austanfjalls. Undirrituð ríður á vaðið með erindi um „Lestrarfélag Þorlákshafnar veiðistöðu“ í dag, fimmtudag kl. 18 í Bæjarbókasafninu, boðið verður upp á kaffi og konfekt auk þess sem gestum gefst færi á að líta augum gamlar bækur lestrarfélagsins.

27. september kl. 12 opnar „Prentsmiðjusafnið mitt“, prentgripasýning Svans Jóhannessonar á Bókasafninu í Hveragerði, 5. október kl. 14 verður ljóðadagskrá í Rauða húsinu á Eyrarbakka á vegum Konubókastofu og þann 11. október opnar Bókakaffið á Selfossi nýja og stærri verslun og býður ýmsar vörur á tilboði af því tilefni.

Allir eru velkomnir á alla viðburði og við hvetjum fólk til að taka þátt í bókabæjarverkefninu, okkur öllum til gleði og heilla.

F.h. undirbúningsnefndar,
Árný Leifsdóttir