Eva Lind íþróttamaður Ölfuss 2014

IMG_3618

Kjör á íþróttamanni Ölfuss fyrir árið 2014 fór fram í Ráðhúsi Ölfuss í dag, sunnudaginn 28. desember. Íþrótta- og æskulýðsnefnd Ölfuss veitir íþróttamönnunum viðurkenningarnar og velur íþróttamann ársins en þetta er í sextánda sinn sem valið fer fram.

Knattspyrnu- og frjálsíþróttakonan Eva Lind Elíasdóttir var valin íþróttamaður Ölfuss 2014. Eftirfarandi er umsögnin um Evu Lind:

Eva Lind er afskaplega fjölhæf íþróttakona. Hún hefur lagt stund á frjálsar íþróttir og knattspyrnu. Nú undanfarið hefur hún lagt meiri áherslu á knattspyrnuna en alltaf eru frjálsíþróttirnar samt nálægt. Hún varð t.d. íslandsmeistari í kúluvarpi stúlkna 18-19 ára innanhúss og þar kastaði hún 11,99 metra.

En meiri tími hefur farið í knattspyrnuna nú síðari missseri. Hún leikur með Umf. Selfoss í efstu deild (úrvalsdeild) þar sem hún er algjör lykilleikmaður. Liðið náði sínum besta árangri síðastliðið sumar með því að enda í 4. sæti deildarinnar og leika til úrslita í bikarkeppni KSÍ við Stjörnuna á Laugardalsvelli. Eva lék 14 leiki með liði sínu og skoraði 4 mörk í sumar og þrátt fyrir ungan aldur hefur Eva spilað hátt í 70 leiki með meistaraflokki of skorða 14 mörk. Eva Lind var valin í æfingahóp U-19 ára landslið Íslands sem lék á æfingamóti i Austurríki síðastliðið sumar.

Eva er gríðarlega fórnfús og vinnusamur íþróttamaður, hún æfir vel og leggur sig fram í öll þau verkefni sem henni eru sett fyrir. Eva býr yfir ótrúlegum styrk og hraða og er hún einn hraðasti leikmaður íslenska kvennaboltans í dag.

IMG_3625Tíu íþróttamenn voru tilnefndir í kjörinu um íþróttamann ársins þetta árið og hér að neðan má sjá alla þá sem tilnefndir voru. Einnig voru viðurkenningar veittar til þeirra sem unnið hafa bikar- eða íslandsmeistaratitil á árinu og/eða hafa keppt með landsliði Íslands í sinni grein.

  • Svanur Jónsson, kylfingur ársins.
  • Birta Óskarsdóttir, fimleikakona ársins.
  • Þorkell Þráinsson, knattspyrnumaður ársins.
  • Katrín Stefánsdóttir, hestaíþróttakona ársins.
  • Eggert Helgason, hestaíþróttamaður ársins.
  • Emil Karel Einarsson, körfuknattleiksmaður ársins.
  • Styrmir Dan Steinunnarson, frjálsíþróttamaður ársins.
  • Axel Örn Sæmundsson, badmintonmaður ársins.
  • Heiðar Örn Sverrisson, akstursíþróttamaður ársins.
  • Eva Lind Elíasdóttir fyrir knattspyrnu og frjálsaríþróttir

Ljósmyndirnar tók Valur Rafn Halldórsson.