Við sem búum í Sveitarfélaginu Ölfusi erum svo heppin að í sveitarfélaginu er glæsileg og vel skipulögð eldri borgara byggð. Samanstendur hún af íbúðum eldri borgara eða Níunni sem er í eigu sveitarfélagsins og svo af íbúðum á Sunnubraut og Mánabraut. Þær íbúðir eru reknar af húsnæðissamvinnufélaginu Elliða. Á undanförnum árum hafa aðilar á vegum Elliða unnið að fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins en hér verður stuttlega fjallað um þau verkefni sem félagið stóð frammi fyrir og hvernig verkefnisstjórn félagsins stefnir á að leysa þau erfiðu verkefni.
Forsaga
Íbúðirnar á Sunnubraut og Mánabraut voru á sínum tíma hugarfóstur fyrrum bæjarfulltrúa og íbúa í sveitarfélaginu og til stóð að félagið yrði í eigu Sveitarfélagsins Ölfuss. Nefnd á vegum sveitarfélagsins kom að því að velja hvernig íbúðir yrðu byggðar, hvaða lán yrðu tekin o.s.frv. Sveitarfélagið gat hins vegar ekki fengið lánafyrirgreiðslu hjá Íbúðalánasjóði. Því var ákveðið að stofna húsnæðissamvinnufélag í kringum íbúðirnar, sem fékk nafnið Elliði. Þetta var árið 2004, en það ár byggði félagið átta parhúsaíbúðir. Þeir sem héldu utan um rekstur félagsins gerðu sér fljótt grein fyrir að mikil eftirspurn væri eftir íbúðum sem þessum og árið 2007 voru 16 íbúðir byggðar til viðbótar. Þessi fyrstu ár gekk allt vel hjá félaginu, en halla tók undan fæti strax árið 2008 þegar fjármálakerfið hrundi.
Árin frá hruni hafa verið félaginu erfið fjárhagslega. Fasteignalán félagsins ruku upp og stóðu margar íbúðir tómar í langan tíma, enda ekki fyrir hendi nauðsynleg eftirspurn, þar sem fasteignamarkaður hér í sveitarfélaginu sem og annars staðar var daufur. Árið 2011 urðu stjórnarskipti og við taumunum tók hópur einstaklinga úr röðum eldri borgara sem tókst á við hin erfiðu verkefni eftir bestu getu, m.a. að leita samninga við Íbúðalánasjóð. Á meðan stjórnin var í þeirri vinnu stöðvaði Íbúðalánasjóður öll kaup og sölur á búseturéttum. Á þessum tíma má segja að vandamál félagsins hafi vaxið hratt og orðið verulega erfið úrlausnar.
Árið 2013 sagði stjórnin sig frá störfum og enginn fékkst til að vera í stjórn félagsins. Fyrir tilstuðlan nokkurra einstaklinga í samráði við eldri borgara var ákveðið að kjósa verkefnisstjórn, sem hefði það verkefni að fara í fjárhagslega endurskipulagningu á félaginu. Í verkefnisstjórnina voru kjörin Ásta Margrét Grétarsdóttir, Guðmundur Baldursson og undirritaður. Þessi verkefnisstjórn lagði mikla vinnu í að semja við Íbúðalánasjóð og sveitarfélagið. Óhætt er að segja að sú vinna hafi bæði verið löng og ströng.
Nú undir lok árs 2014 virðist loksins vera að sjá fyrir endann á verkefninu. Allt stefnir í að endirinn á þessari löngu sögu, sem byrjaði með fallegri hugsun um vel skipulagða eldri borgara byggð, fái einnig farsælan endi. Er þar átt við að nú eru búseturéttarhafar búnir að skrifa undir viðauka við búsetusamninginn við Elliða, sem verður til þess að Íbúðalánasjóður getur fellt niður hluta af skuldum félagsins og gerir það félagið rekstrarbært. Margir hafa lagt hönd á plóg við að finna lausn á vanda Elliða. Samstillt átak verkefnisstjórnar, fyrri og núverandi bæjarstjórnar og síðast en ekki síst búseturéttarhafa hefur leitt til þess að loks virðist lausnin vera í sjónmáli.
Aðkoma sveitarfélagsins
Verkefnisstjórn Elliða gerði fyrr á þessu ári þjónustusamning við sveitarfélagið um utanumhald og rekstur félagsins. Með samningnum færðist daglegur rekstur, s.s. viðhald á eignum og bókhaldsþjónusta til sveitarfélagsins og í dag á sveitarfélagið einn fulltrúa í stjórn félagsins. Þessi samningur mun bæta þjónustu við íbúa og styrkja fjárhagslegan grundvöll félagsins. Einnig hefur sveitarfélagið aðstoðað félagið með sérfræðiþekkingu.
Að auki hefur sveitarfélagið skuldbundið sig til að kaupa búseturétti af félaginu, ef þeir seljast ekki á tilskyldum tíma. Á þetta þó einungis við búseturétti þeirra íbúa sem eru í félaginu í dag. Ekki er gert ráð fyrir að þetta ákvæði þurfi að virkja oft og vonandi aldrei. Þessi aðkoma sveitarfélagsins varð til þess að hægt var að ganga að samningum við Íbúðalánasjóð.
Skuldir félagsins
Félagið var orðið mjög skuldsett en heildarskuldir félagsins við Íbúðalánasjóð voru í október árið 2014 um 654 m.kr. og skv. ársreikningi félagsins fyrir árið 2013 var skuld félagsins við íbúa um 141 m.kr. Þetta gera 795 m.kr., en eignir félagsins eru metnar á um hálfan milljarð. Félagið var því yfirveðsett. Eftir skuldaniðurfærslu Íbúðalánasjóðs og samninga við búseturéttarhafa er gert ráð fyrir að skuldir félagsins við Íbúðalánasjóð verði um 520 m.kr. Með þessu fyrirkomulagi eru allir að gefa eftir sem verður til þess að í stað þess að enginn fái neitt, þá fá allir góðan hluta af því sem lagt var upp með í upphafi. Að meðaltali lögðu búseturéttarhafar tæpar 6 m.kr. inn í félagið á sínum tíma (allt frá 4,2 til 7 m.kr.). Nú er verið að tryggja að íbúar fái að meðaltali 3 m.kr. af sínum búseturétti til baka (allt frá 1,8 til 3,9 m.kr.). Vissulega eru þetta mikil afföll en það má ekki gleyma því að áður en verkefnisstjórnin tók til starfa var öll upphæðin töpuð og að óbreyttu var félagið á leið í þrot.
Framtíð Elliða
Áður en rætt er um framtíð félagsins Elliða er þó mikilvægt að gera sér grein fyrir að þessi úrlausn á eftir að fara fyrir stjórn Íbúðalánasjóðs og þaðan áfram til velferðarráðuneytisins. Þess má þó geta að fulltrúum Íbúðalánasjóðs hefur verið kynnt þessi lausn og engar athugasemdir voru settar fram af þeirra hálfu. Því er verkefnisstjórnin bjartsýn á að þetta fari fljótt og örugglega í gegnum stjórnsýsluna. Þessi leið sem verið er að fara verður til þess að félagið getur starfað áfram til framtíðar. Einnig er verið að tryggja búseturéttarhöfum hlut af sínum búseturétti og síðast en ekki síst er verið að tryggja búsetuöryggi íbúa og auka þjónustu við þá.
Það stefnir því allt í að framtíðin verði björt hjá Elliða og að eldri borgara byggð sveitarfélagsins verði áfram til staðar í Þorlákshöfn.
Að lokum þakkar undirritaður öllum þeim sem hafa aðstoðað við að finna lausn á vandamálum Elliða og óskar öllum íbúum sveitarfélagsins farsældar á nýju ári.
Valur Rafn Halldórsson
stjórnarformaður húsnæðissamvinnufélagsins Elliða