Nýtt íslandsmet Styrmis: Hæsta stökk ársins innanhúss

Hér er Styrmir Dan ásamt þjálfara sínum Rúnari eftir íslandsmetið í gær.
Hér er Styrmir Dan ásamt þjálfara sínum Rúnari eftir íslandsmetið í gær.

Styrmir Dan Steinunnarson heldur áfram að bæta íslandsmetin en í gær tvíbætti hann íslandsmet sitt í hástökki á áramóti Fjölnis.

Fyrst stökk Styrmir 1,94 metra og var það nýtt met í nokkrar mínútur eða allt þar til að hann stökk aftur en þá flaug hann yfir 1,98 sem er nýtt íslandsmet í hástökki innanhús í flokki 15 ára pilta.

Það er einnig gaman að geta þess að Styrmir, sem er einungis 15 ára, á bestan árangur allra íslenskra karla í hástökki innanhúss á þessu ári ásamt tveimur öðrum. Sem þýðir að enginn íslendingur hefur stokkið hærra en hann innanhúss á þessu ári sem er magnaður árangur hjá þessum öfluga íþróttamanni.

Styrmir á fjórða besta árangurinn í hástökki utanhúss á árinu en hann stökk 1,96 metra sem var einmitt íslandsmet í flokki 15 ára pilta. Sá sem stökk allra hæst utanhúss á árinu stökk 2,01 metra og munar því einungis 3 sentímetrum á stökki Styrmis í gær og hæsta stökki ársins.

Eva Lind Elíasdóttir, nýkjörin íþróttamaður Ölfuss, hafnaði í þriðja sæti í kúluvarpi kvenna á mótinu með kast uppá 11,66 metra.

Hér má sjá myndband af stökki Styrmis í gær.