Breyting á liði Ölfuss sem keppir í Útsvari á föstudaginn

utsvar01Ölfus mætir Stykkishólmi í 16 liða úrslitum Útsvarsins á föstudaginn, 6. mars. Þátturinn verður í beinni útsendingu á RÚV og hefst hann klukkan 20.

Lið Ölfuss er örlítið breytt frá því fyrir áramót, en áfram skipa liðið þau Hannes Stefánsson og Ingibjörg Hjörleifsdóttir en í stað Bjarna Más Valdimarssonar sem var veikur síðast og Ástu Margrétar Grétarsdóttur, sem kom í hans stað, kemur Stefán Hannesson. Stefán er sonur Hannesar og var þátttakandi í síðustu keppni Ölfuss sem símavinur.

stefan_hannesson01
Stefán Hannesson.

Bjarni Már sá sér ekki fært að vera í liði Ölfuss í 16. liða úrslitunum þar sem hann stundar nú sjómennsku frá Raufarhöfn sem er í 650 kílómetra fjarlægð frá Þorlákshöfn.

Síðasta keppni Ölfuss í Útsvarinu var stórskemmtileg og verður gaman að fylgjast með liðinu á föstudaginn. Þeir sem vilja fylgjast með keppninni í sjónvarpssal eru velkomnir en húsið opnar klukkan 19:30.