Frumsýning söngleiksins Billy Elliot fór fram síðastliðinn föstudag þar sem Þorlákshafnarbúinn Sölvi Viggósson Dýrfjörð fór með hlutverk Billy Elliots.
Í leikdómi á Vísi.is fær söngleikurinn fullt hús stiga eða 5 stjörnur af 5 mögulegum. Gagnrýnandi fer mjög fögrum orðum um frammistöðu Sölva í dómi sýnum eins og sjá má:
Sölvi Viggósson Dýrfjörð fór með hlutverk Billys á frumsýningu en orð fá varla lýst hversu magnaður þessi ungi drengur er í sýningunni. Ef frammistaða hans er forsmekkurinn að hæfileikum þeirra Baldvins og Hjartar, sem leika einnig Billy, þá eiga áhorfendur eitthvað stórkostlegt í vændum. Það er unun að fylgjast með honum takast á við burðarhlutverk af þessu tagi og forréttindi að sjá fjölhæfni hans blómstra.
Sölvi leikur, syngur og dansar í sýningunni og er gagnrýnandi Vísis einnig yfir sig ánægður með ballettsenur Sölva.
Hann leikur og syngur af mikilli list en það eru dansatriðin sem eru algjörlega sér á parti og þá sérstaklega ballettsenurnar. Áhorfendur fylgjast með honum vaxa og dafna í gegnum sýninguna, eitt spor í einu, og taka andköf þegar þeir gera sér grein fyrir hversu langt Sölvi/Billy hefur náð. Lee Proud danshöfundur sýningarinnar á mikinn heiður skilin fyrir sína vinnu sem hreint út sagt lyftir dansatriðum í íslensku leikhúsi á nýtt og hærra plan.