Bráðum kemur betri tíð

Ólafur HannessonNú er kominn júní og því hægt að segja að það sé komið sumar, þrátt fyrir að hitinn hafi ekki verið neitt sérstaklega mikill í vor þá er orðið bjart yfir og jákvæðni yfir vötnum. Þetta var þungur vetur og langt síðan hægt er að tala um eins slæma tíð, bátarnir voru umtalsvert meira í höfn heldur en menn hefðu viljað. En þetta er náttúran og við ráðum lítið við hana, það sem við getum gert er að horfa jákvæðum augum á ástandið og gera það besta úr því sem við höfum.

Sveitarfélagið Ölfus er fallegt sveitarfélag og er að mínu mati falin perla í augum margra. Þúsundir keyra í gegn um sveitarfélagið án þess að stoppa og í raun án þess að hugsa út í að það sé þess virði að stoppa, menn bruna í gegn á leið á sinn áfangastað.  Þetta hryggir mig því hér höfum við mikla möguleika sem hægt er að njóta vel. Náttúra, íþróttamannvirki, kaffi og veitingastaðir og margt  fleira.  Þetta svæði hefur verið paradísin í skugga höfuðborgarinnar.  En þetta hefur þó verið að breytast smátt og smátt, vinna margra smáaðila sem eru að störfum í sveitarfélaginu vekur athygli og þessi jákvæða umfjöllun kveikir á áhuga margra að skoða þetta svæði betur.

Það er ýmislegt sem er verið að skoða í dag og finna menn fyrir auknum áhuga, sérstaklega ferðaþjónustunnar, til að gera eitthvað meira í sveitarfélaginu.  Það eru margir orðnir þreyttir á tali um að eitthvað sé á næsta leiti sem kemur svo aldrei en það er alltaf nauðsynlegt að vera jákvæður í þessu samhengi, því jákvæðnin elur af sér betri tíma.  Það viðhorf sem íbúar sveitarfélagsins sýna gagnvart hugmyndum og tækifærum getur haft mikið um áhuga utanaðkomandi fólks á svæðinu að segja.

Þetta er sameiginlegt verkefni okkar allra, við eigum það oft til að benda á bæjarstjórnina og kenna þeim um ástandið, en sannleikurinn er að það er samfélagið allt sem heldur um stýrið. Við þurfum að tala um tækifærin sem búa í sveitarfélaginu, þegar við erum í veislum hjá vinafólki eða við hvaða tækifæri sem er.  Við þurfum að vera okkar eigin auglýsing.  Þú getur hent milljónum í markaðsherferðir sem gera mis mikið, en sterkasta vopnið er spjall manna á milli, frá okkar munni í þeirra huga.

Ég vil nota tækifærið og óska heldri borgurum til hamingju með nýstofnað öldungaráð, það var sameiginlegt verkefni sem allir flokkar tóku undir í síðustu kosningum, vonandi gefur það þeim þá rödd sem þeim fannst vanta.  Svo vil ég óska ykkur gleðilegs sumars og megi það vera ykkur til gæfu og gleði. Verum jákvæð og verum okkar eigin gæfu smiðir. Framtíðin er björt vegna þess að við gerum hana að einni slíkri.

Ólafur Hannesson
Höfundur er varaformaður Sjálfstæðisfélagsins Ægis