Krakkar frá Þorlákshöfn héldu í víking til Barrow í Englandi til að auka færni sína í körfubolta. Þessir krakkar eru á aldrinum 11-17 ára og saman stendur hópurinn af 19 körfuknattleikssnillingum ásamt fararstjórunum Ágústi Erni og Önnu Júl. Yfirþjálfari búðanna er Laszlo Nemeth, sem eitt sinn þjálfaði KR og íslenska landsliðið í körfuknattleik. Búðirnar stóðu í 6 daga og var æft þrisvar á dag og síðan spilaðir tveir leikir. Eftir hvern æfingadag var valinn leikmaður dagsins en einnig var valið í All Star lið búðanna og keppt í þriggja stiga keppni. Síðan var 1 á 1 mót, 3 á 3 mót og svo að sjálfsögðu var diskótek til að hrista hópinn enn betur næst síðasta kvöldið.
Krakkarnir stóðu sig gríðarlega vel í búðunum og unnu til margvíslegra verðlauna. Við áttum tvo fulltrúa í All Star liði eldri iðkenda en það voru þeir Magnús Breki og Sigurður Jónsson. Þá áttum við þrjár stelpur í All Star liði kvenna en það voru þær Sigrún Elfa, Jenný Lovísa og Dagrún Inga. Við áttum síðan fjóra iðkendur í All Star liði yngri iðkenda, það voru þeir Benjamín Þorri, Sigurður Freyr, Styrmir Snær og Ísak Júlíus. Sigurður Jónsson varð þriggja stiga kóngur eldri iðkenda en hann smellti niður 13 þriggja stiga körfum á einni mínútu.
Í búðunum voru krakkar frá öllum heimsálfum og er mjög gaman að sjá hvernig þau ná saman í gengum körfuboltann. Upplagið í búðunum er nefnilega þannig að iðkendunum er blandað saman í æfingahópa eftir getu en ekki þjóðerni. Krakkarnir fá svo að spreyta sig í ensku því allir þjálfararnir tala ensku þó svo að þeir séu líka frá mörgum löndum.
Kveðja frá Barrow Englandi