Í gær um klukkan hálf tvö barst Neyðarlínunni og Brunavörnum Árnessýslu tilkynning um að eldur logaði í gróðri á Hellisheiði.
Tilkynning um staðsetningu var frekar óljós en slökkviliðsmenn frá Brunavörnum Árnessýslu fóru af stað til að finna og slökkva eldinn. Illa gekk að staðsetja eldinn en að lokum fundu þeir hann með hjálp þyrluflugmanns frá Norðurflugi sem hafði verði á sveimi á svæðinu.
Ekki var gerlegt að fara með þunga slökkvibíla á staðinn og því var notast við fjallabíl og kerru frá slökkviliðinu með nauðsynlegum búnaði.
Vel gekk að slökkva eldinn sem kraumaði í mosaþembu en bruninn náði yfir um 300 fermetra landsvæði.
Slökkvistarfinu var lokið um klukkan 18 en eldsupptök eru óljós.