Hjörtur Már fór upp Esjuna: „Ógleymanleg upplifun“

hjortur_mar_esjan„Tilfinningin var frábær og þetta var ógleymanleg upplifun“ segir Hjörtur Már Ingvason í samtali við Hafnarfréttir um ferðina upp á topp Esjunnar í gær. Hann var einn af 24 einstaklingum sem fóru upp Esjuna með aðstoð Öryggismiðstöðvarinnar og sjálfboðaliða. Verkefnið gekk út á það að hjálpa hreyfihömluðum einstaklingum upp á fjallið í sérstökum torfæru hjólastól.

Hjörtur Már sótti um að fá að taka þátt þegar Öryggismiðstöðin auglýsti eftir fólki til að fara í ævintýraferð upp á Esju. „Ferðin gekk mjög vel með frábæru aðstoðarfólki en mesta spennan var að fara upp á toppinn“ segir Hjörtur Már en það voru starfsmenn Meniga sem aðstoðuðu hann á toppinn ásamt Öryggismiðstöðinni.

Skondið atvik átti sér stað á niðurleiðinni hjá Hirti og aðstoðarmönnum hans. “Aðstoðarfólkið fór að hlaupa með mig síðasta spölinn en þá hrasaði einn aðstoðarmaðurinn og hálf missti takið en allt fór vel og allir hlógu og höfðu gaman af.“

„Ég vil þakka öllum sem komu að þessu verkefni, sérstaklega Öryggismiðstöðinni og Meniga sem fóru með mér upp og niður Esjuna. Einnig vertinum á Esjustofu sem hafði tilbúinn mat handa okkur þegar niður var komið,“ segir Hjörtur Már léttur í bragði að lokum um þessa einstöku ferð.

Myndband af síðasta spölnum hjá Hirti má sjá hér fyrir neðan.

Sigur! 🙂 Síðasti spölurinn er alltaf drjúgur! Hér kemst Hjörtur Már á toppinn með aðstoð gönguhóps frá Meniga. 🙂 #esjanrullar

Posted by Öryggismiðstöðin on Wednesday, 19 August 2015