Mikill fjöldi gesta hefur lagt leið sína á kaffihúsið Hendur í höfn í Þorlákshöfn í sumar. Gríðarleg aukning erlendra ferðamanna á Íslandi hefur skilað sér á kaffihúsið, því alls reyndust um 40% gesta vera útlendingar. Það er um 300% aukning sl. tvö ár. Greinilegt sóknarfæri er því hér í Þorlákshöfn, ekki síður en annars staðar, varðandi þjónustu við þá sem hingað leggja leið sína.
Þar sem erfitt hefur reynst að halda glervinnustofunni gangandi yfir sumartímann samhliða rekstri kaffihússins hefur verið ákveðið að breyta starfseminni í vetur.
Hópar og veisluþjónusta
Eingöngu verður opið fyrir hópa í vetur og verða þeir að hafa pantað tímanlega, hvort sem um er að ræða matar- eða kaffigesti. Sem fyrr verður einungis boðið upp á besta fáanlega hráefni hverju sinni. Sjávarfang er úr nærumhverfinu og kjöt og grænmeti beint frá býli eftir því sem mögulegt er. Hráefni til brauð- og kökugerðar er einnig vandað og gott og sem fyrr leggjum við áherslu á að mæta þörfum hvers og eins, m.a. með því að bjóða upp á glútenfrítt brauðmeti.
Í samvinnu við menntaðan og reyndan matreiðslumann tökum við einnig að okkur veitingar í hvers kyns veislum nú í vetur.
Glervinnustofa – nytjamunir og námskeið
Á glervinnustofunni hefur að mestu verið unnið að sérverkefnum og er alltaf hægt að kíkja við og kynna sér hvað er í boði. Matarstell og alls kyns nytjamunir hafa verið afar vinsælir og þá er hægt að panta eftir óskum hvers og eins, hvort sem er til eigin nota eða tækifærisgjafa.
Glernámskeiðin hafa alltaf notið mikilla vinsælda og verður boðið upp á þau í vetur, bæði fyrir einstaklinga og hópa. Fullt fæði er innifalið í námskeiðsgjaldi. Þessi námskeið eru tilvalin fyrir minni hópa, s.s. saumklúbba, kvenfélög, fjölskyldur, gæsa- eða steggjahópa, vinahópa eða starfsmannafélög. Hægt er að eiga saman góða samverustund, borða ljúffengan mat og eiga að loknu námskeiði fallega muni og góðar minningar.
Boðið er upp á námskeið á þeim tímum sem best hentar hverjum hópi og taka styttri námskeið u.þ.b. 4 klukkustundir. Kenndar eru grunnaðferðir í glerskurði ásamt skreytingum. Á lengri námskeiðum er markmiðið að nemendur verði nokkuð sjálfbjarga í glervinnu. Þá er markmiðið að þekkja helstu gerðir flotglerja, helstu skreytinga- og litaaðferðir og kannast við mismunandi brennsluaðferðir. Í framhaldi af slíku námskeiði geta nemendur tekið þátt í opinni vinnustofu. Lengri námskeiðin eru 16 klst.löng og eru kennd sem kvöld- eða helgarnámskeið.
Opin vinnustofa er fyrir þá þá sem sjálfbjarga eru í glervinnu. Hún verður í boði á glervinnustofunni í vetur og verður auglýst sérstaklega á heimasíðu www.hendurihofn.is og á facebook.
Að lokum skulu hér færðar hjartans þakkir öllum þeim sem lagt hafa leið sína á Hendur í höfn – kaffihús í sumar. Starfsemin hefur sannarlega blómstrað þessi rúmlega tvö ár sem kaffihúsið hefur starfað og er það fyrst og fremst góðum gestum og frábæru starfsfólki að þakka.
Það verður spennandi og skemmtilegt að taka á móti enn fleiri gestum í framtíðinni.
Kærar kveðjur úr Þorlákshöfn
Dagný Magnúsdóttir, glerlistakona og kaffihúsaeigandi