Á seinasta ungmennaþingi sem Ungmennaráð Ölfus hélt var mikið rætt um framboð af afþreyingu fyrir ungmenni sem lokið hafa grunnskóla. Hugmynd kom upp um að opna ungmennahús fyrir 16 ára og eldri en það er hugmynd sem hefur komið upp áður á ungmennaþingum.
Fulltrúar í ungmennaráði, forstöðumaður félagsmiðstöðvarinnar og íþrótta- og æskulýðsfulltrúi hafa rætt þessa hugmynd og nú hefur verið ákveðið að fara í tilraunaverkefni til að athuga hvort áhugi sé hjá þessum aldri til að sækja slíkt ungmennahús. En stefnt er að því að hafa opið annan hvern fimmtudag fram að áramótum.
Fyrsta opnunin verður fimmtudaginn 8. október í húsnæði Félagsmiðstöðvarinnar Svítunnar og eins og fyrr segir verður opið annan hvern fimmtudag. Dagskrá ungmennahússins verður í höndum starfsmanns, ungmennaráðs og þeirra sem mæta.
Vonandi mun þessi nýjung leggjast vel í ungmennin svo hægt verði að festa starfsemina í sessi til framtíðar.