Það hefur sennilega ekki farið framhjá neinum að unnið hefur verið að endurbótum og lagfæringum í skrúðgarðinum síðasta árið. Unnið er eftir hönnun Hlínar Sverrisdóttur landslagsarkitekts og er skrúðgarðurinn farinn að taka á sig verulega fallega mynd eftir vinnu sumarsins.
Búið er að malbika og og útbúa stíga, helluleggja, útbúa beð og hlaða upphækkun í miðjum garðinum. Kvenfélag Þorlákshafnar, sem átti forgöngu að gerð garðsins á sínum tíma, gefur sveitarfélaginu fallegan bekk sem búið er að koma fyrir í fallegri laut í norðvesturhorni garðsins, en von er á öðrum eins bekk. Guðjón Kristinsson, hleðslumaður hefur unnið að fallegri hleðslu í miðjum garðinum og er að leggja lokahönd á hana þessa dagana. Stefnt er að því að ljúka verkinu næsta vor, en enn á eftir að helluleggja nokkuð, snyrta og laga frágang á ýmsum stöðum auk þess sem leitast verður við að planta íslenskum blómum og jurtum í steinabeð.
Meðfylgjandi myndir tók menningarfulltrúi á góðum degi í vikunni.
Eftirfarandi frétt birtist á vef sveitarfélagsins.