Eins og flestir vita er október mánuður tileinkaður baráttunni gegn krabbameini hjá konum og er bleika slaufan merki átaksins.
Grunnskólinn í Þorlákshöfn lætur átakið ekki fram hjá sér fara og setti upp í byrjun mánaðar bleika slaufu utan á skólann ásamt því að klæða ljósin í glerhýsinu bleikum dulum sem kemur sérlega vel út þegar kvölda tekur. Þetta er þriðja árið sem skólinn setur upp bleiku slaufuna.
Það var kennarinn Ásta Júlía Jónsdóttir sem fékk þá hugmynd að gera eitthvað til að styðja við verkefnið á táknrænan hátt þar sem grunnskólinn er fjölmennasti vinnustaður kvenna hér í Þorlákshöfn. Hún fékk Önnu Margréti Smáradóttur með sér í lið sem hannaði og smíðaði slaufuna. Halldóra Valdimarsdóttir sá síðan um að setja bleika efnið utan um ljósin í glerhýsinu.