Á íbúafundi í Ölfusi seinasta þriðjudag var gert grein fyrir framkvæmdum sem fyrirhugaðar eru í Hveradölum. Grettir Rúnarsson eigandi Skíðaskálans í Hveradölum er með hugmyndir um að byggja upp sannkallaða ferðamannaparadís í grennd við skíðaskálann bæði fyrir innlenda og erlenda ferðamann.
Samkvæmt þeim hugmyndum sem kynntar voru þá stendur til að byggja 150 herbergja hótel við Skíðaskálann í Hveradölum og útbúa baðlón innst í Stóradal. Slíkt baðlón væri í líkingu Jarðböðin á Mývatni og Bláa Lónið.
Grettir hefur nú þegar gert samninga við Orkuveituna um að kaupa kísilvatn frá Hellisheiðarvirkjun í lónið en gert er ráð fyrir að lónið verði um 10.000 fermetrar að stærð.
Einnig hefur Grettir hug á að koma aftur upp skíðalyftum á svæðinu og endurvekja þannig upp gömlu stemninguna sem var á þessu svæði hér á árum áður. Við enda skíðalyftunnar er svo gert ráð fyrir svokölluðum norðurljósapott þar sem ferðamenn geta notið norðurljósanna ofan af fjallinu fjarri mannabyggðum.
Grettir hefur kynnt þessar hugmyndir fyrir bæjarstjórn Ölfuss og hefur þetta fengið jákvæða umfjöllun þar og er nú þegar komið í skipulagsferli. Landmótun hefur unnið deiluskipulag fyrir svæðið og þær teikningar sem fylgja þessari frétt voru unnar af Studio Granda.
Á þessum myndum má sjá að svæðið yrði stórglæsilegt og erfitt er að sjá fyrir sér annað en að þetta verði virkilega vinsæll ferðamannastaður ef af framkvæmdum verður.