Talsverður viðbúnaður lögreglu og slökkviliðs varð um klukkan tvö í nótt vegna reyks sem lagði frá dæluvatnslokahúsi austan við stöðvarhús Hellisheiðarvirkjunnar. Lögregla, slökkvilið frá Brunavörnum Árnessýslu og höfuðborgarsvæðinu ásamt sjúkraliði frá HSU fóru með forgangi á vettvang. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Lögreglunni á Suðurlandi.
Ekki var sjáanlegur eldur þegar slökkvilið kom á staðinn en mikill reykur sem kom frá skiljuvatnsdælu. Starfsmenn virkjunarinnar sem voru á vakt fengu boð um eld í viðvörunarkerfi. Þegar starfmennirnir komu í húsið sáu þeir eldglæringar koma frá legu vatnsdælunnar.
Af þessu hlutust ekki slys á fólki. Slökkviliðsmenn reykræstu húsið og það gekk vel og fjárhagslegt tjón óverulegt.