Skinney-Þinganes sem nýlega skrifaði undir samning um kaup á öllu hlutafé í Auðbjörgu ehf. ætlar sér að „byggja upp öfluga og sérhæfða vinnslu í Þorlákshöfn. Áhersla verður lögð á vinnslu fersks og frysts þorsks en jafnframt er stefnt á vinnslu fleiri tegunda þegar tímar líða“ segir í tilkynningu sem Skinney-Þinganes sendi frá sér í gær.
Breytingar verða gerðar á skrifstofuhaldi og það að mestu sameinað því sem fyrir er hjá fyrirækinu. Fjöldi landverkafólks verður sá sami og áður en skipum verður fækkað um eitt í apríl á þessu ári.
Samkvæmt heimildum Fréttastofu RÚV þá verður bátunum Arnari og Ársæli lagt en það voru bátar sem Auðbjörg gerði út. Í staðin mun Þinganes, nýrra skip Skinneyjar, koma til Þorlákshafnar. „Sömu heimildir herma að áhöfnum Arnars og Ársæls hafi verið sagt upp, en boðið að sækja um skipsrúm á Þinganesinu.“