Um helgina fór Meistaramót Íslands í frjálsum íþróttum 11-14 ára fram í Kaplakrika í Hafnarfirði. Frjálsíþróttadeild Þórs átti fjórtán keppendur í liði HSK á þessu móti og náðu þeir frábærum árangri. HSK sigraði heildarstigakeppni mótsins og hlutu einnig fimm af átta aldursflokkaverðlaunum á mótinu.
Það er ekki ofsögum sagt að Þórsarar léku mjög stórt hlutverk í þessum góða árangri Héraðssambandsins. Allir keppendur Þórs bættu sinn persónulega árangur í einni eða fleiri greinum en alls áttu þau 33 persónulegar bætingar á mótinu. Ef litið er til einstakra afreka þá komu krakkarnir heim með þrjá Íslandsmeistaratitla, fengu 7 silfur og 7 brons.
Auður Helga Halldórsdóttir varð Íslandsmeistari 11 ára í bæði langstökki og hástökki og Katrín Ósk Þrastardóttir í 2.sæti í báðum greinum. Bríet Anna Heiðarsdóttir varð Íslandsmeistari í kúluvarpi 11 ára og Hildur Björk Gunnsteinsdóttir í 2.sæti. Ernest Brulinski varð í 2.sæti í kúluvarpi 11 ára og Solveig Þóra Þorsteinsdóttir fékk brons í langstökki 14 ára. Flestir keppendur Þórs voru í boðhlaupssveitum HSK og fengu tvær þeirra sveita silfurverðlaun og þrjár brons. Það er greinilegt að Rúnar Hjálmarsson þjálfari er að gera góða hluti hjá frjálsíþróttadeildinni og er með flottan hóp í höndunum.
Það er alltaf gaman að keppa á svona stóru móti, ekki síst þegar árangurinn er góður. Keppendur stóðu sig líka einstaklega vel í umgengni og framkomu og fengu sérstakt hrós frá skólanum þar sem gist var fyrir mjög góða umgengni. Góður félagsandi í bland við skemmtilega keppni er það sem stendur uppúr eftir frábæra helgi í Hafnarfirðinum og framtíðin er greinilega björt í frjálsum íþróttum í Þorlákshöfn og á öllu HSK svæðinu.
Sigþrúður Harðardóttir