Leikskólinn Bergheimar er grænfánaskóli og þurfa grænfánaskólar að velja þemu/verkefni sem stefnt er að. Umhverfisnefnd Bergheima hefur lagt til að næsta þema verði lýðheilsa og þá er lögð áhersla á m.a. fræðslu um tannheilsu og góðar neysluvenjur.
Að þessu markmiði fellur samstarf leikskólans við Petru Vilhjálmsdóttur starfandi tannlækni í Þorlákshöfn, hún og Jenný Dagbjört Ævarr Erlingsdóttir hafa komið mörg undan farin ár í heimsókn í leikskólann í tannverndarvikunni.
Tannverndarvikan er haldin fyrstu vikuna í febrúar og þá koma þær og ræða við og fræða leikskólanemendur um góða tann- og munnheilsu. Í tilefni heimsóknarinnar fá allir leikskólanemendur tannbursta og tannkrem. Á heimasíðu landlæknis má finna gott fræðsluefni um tannvernd.
Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum þá er skemmtilegt að fá þær stöllur í heimsókn með krókódíl og tanngóma auk þess sem þær kenna allskyns fræði og fróðleik.