Digiqole ad

„Við erum bara hið versta fólk í þeirra augum eftir þetta“

 „Við erum bara hið versta fólk í þeirra augum eftir þetta“

hveragerdi01Fyrrum bæjarstjórnarfulltrúi í Hveragerði telur að Ölfusingar líti á Hvergerðinga sem hið versta fólk eftir deilur um Hellisheiðarvirkjun. Þetta kemur fram í bókinni Hin mörgu andlit lýðræðis – þátttaka og vald á sveitarstjórnarstiginu sem Gunnar Helgi Kristinsson gaf út árið 2014. Bókin byggir á rannsóknarverkefni sem unnið var á árunum 2008-2012 við Háskóla Íslands.

Rætt var við ýmsa viðmælendur frá Hveragerði í rannsókninni og voru margir hverjir ekki sáttir með samskipti Hveragerðisbæjar og Sveitarfélagsins Ölfuss. „Hveragerði er bara eyja í Ölfusinu,“ sagði einn þeirra, „það má eiginlega segja að Hveragerði sé hálfgert borgríki Í Ölfusinu.“ Hveragerði veitir mörgum íbúum í Ölfusinu ýmsa þjónustu (gegn greiðslu) en hins vegar hefur Ölfusið skipulagsvald á svæðum sem skipta Hvergerðinga miklu máli.

„Ég held að allir sem hafa séð og komið nálægt Hellisheiðarvirkjun,“ segir bæjarstjórnarmaður í Hveragerði, „sjái og finni að það er töluverð mengun af þessu. Og það er töluverð sjónmengun af borholum sem blása og það er hávaðamengun og … affall … Sjötíu, áttatíu daga á ári er ríkjandi norðanátt hérna á svæðinu … Fyrir utan það þá erum við náttúrulega með vatnsból hér … það er svona ýmislegt sem við sáum að væri ákveðin hætta … fyrir utan það að þessi svæði hérna fyrir ofan eru mjög verðmæt frá útivistarlegu sjónarmiði og umhverfislegu sjónarmiði. Þetta er Ölkelduhálsinn, þetta er svokallað Klambragil þar sem er heitur lækur og það er mjög fallegt á þessu svæði. Þannig að [að] öllu þessu samanlögðu þá töldum við bara að þetta væri ekki ásættanlegt, að setja virkjum þarna. [Þetta] hefur ekkert með pólitík að gera. Við erum bara hið versta fólk í þeirra augum eftir þetta.“