Sigurvegarar upplestrarkeppninnar

Stóra upplestrarkeppninStóra upplestrarkeppnin var haldin á sal Grunnskólans í Þorlákshöfn í dag. Skólinn hefur verið með í keppninni frá upphafi eða í 20 ár. Aðstandendur barnanna í sjöunda bekk voru mættir til að hlýða á upplesturinn ásamt nemendum í 6. bekk sem voru sérstaklega boðnir að vera viðstaddir. Næsta vetur er það þeirra að taka þátt í keppninni.

Það var hátíðleg stund þegar Ásta Júlía Jónsdóttir umsjónarkennari leiddi nemendur sína inn á svið. Þegar nemendur höfðu komið sér fyrir á stólum á sviðinu kynnti hún keppendur. Þeir risu einn og einn úr sætum þegar nöfn þeirra voru lesin upp.

Nemendur lásu upp í þremur umferðum. Í fyrstu umferð lásu þeir texta úr bók Þorgríms Þráinssonar Ertu Guð afi? Í annarri umferð var lesið upp ljóð eftir skáldkonuna Erlu eða Guðfinnu Þorsteinsdóttur og í þriðju og síðustu umferð völdu nemendur ljóð sjálfir til að lesa upp.

Dómarar keppninnar voru Guðrún Sigríks Sigurðardóttir, Magnþóra Kristjánsdóttir og Sigþrúður Harðardóttir.

Dómnefndin var ekki öfundsverð, því börnin voru mjög jöfn. Þau stóðu sig feikilega vel og framkoma þeirra til fyrirmyndar. En það varð að velja þrjá lesara og einn til vara til að taka þátt í lokakeppninni sem fram fer í Hveragerði 10. mars nk.

Sigurvegararnir keppninnar og fulltrúar Grunnskólans í Þorlákshöfn í Stóru upplestrarkeppninni í ár eru Helga Ósk, Björg Jökulrós, Lilja Rós og til vara Júlía Lis.