Umhverfisnefnd og flokkun sorps í grunnskólanum

Flokkun ruslVið Grunnskólann í Þorlákshöfn er starfandi umhverfisnefnd starfsmanna og nemenda. Markmiðið með starfi nefndarinnar er að auka umhverfisvitund og vinna markvisst að grænfánaverkefni skólans sem fór af stað árið 2007 með þróunarverkefninu Grænir grunnskólafingur græða landið.

Starf í þágu umhverfisins var markvisst og gott í nokkur ár en hefur aðeins legið í láginni undanfarið. Í tengslum við átak um minnkandi matarsóun í samvinnu við mötuneytið var ákveðið að hrinda af stað markvissu átaki varðandi flokkun úrgangs.

Eftir að starfsmenn höfðu fengið fræðslu varðandi flokkun sorps var byrjað á því að setja upp öfluga ,,flokkunarstöð“ á kaffistofu starfsmanna. Var hún hugsuð til undirbúnings og þjálfunar fyrir starfsmenn. Í kjölfarið voru svo sambærilegar stöðvar settar upp í öllum stofum á yngsta og miðstigi og frammi á gangi hjá unglingunum. Þeir borða ekki nesti í stofum sínum og því minni þörf þar inni.

Umhverfisnefnd skólans er skipuð fimm starfsmönnum og 1-2 nemendum úr hverjum árgangi. Nefndin fékk það hlutverk að fara í stofur og kynna verkefnið, einn starfsmaður og viðkomandi nemandi kynnti í hverjum árgangi. Kynningin gekk vel og voru krakkarnir almennt mjög áhugasamir um aukna flokkun. Enn er ekki komið í ljós hvernig þetta mun ganga en miðað við áhugann er umhverfisnefndin bjartsýn á árangur, en átak sem þetta snýst fyrst og fremst um breytt hugarfar.

Fréttin birtist á vef Grunnskólans í Þorlákshöfn.