otto01Vefsíðan www.tolfus.is opnaði nýverið og er hún í eigu Ottós Rafns Halldórssonar. Tilgangur vefsíðunnar er að kynna tölvuþjónustu, sem hann býður upp á í Ölfusi.

Ottó Rafn hefur margra ára reynslu í rekstri hvers kyns tölvukerfa, hefur unnið við uppsetningar á netkerfum, símstöðvum, öryggiskerfum, verið í notendaþjónustu og rekið internetveitu. Á meðal fyrirtækja sem hann hefur starfað hjá eru Islandia Internet, TAL, ogVodafone, Penninn, PD Security og Svar Tækni.

Á Tolfus.is má finna pistil um 6 atriði sem ber að hafa í huga til að halda tölvunni þinni öruggri. Pistilinn má sjá hér að neðan:

  1. Athugaðu eldvegginn hjá þér.
    Það hljómar kannski flókið en í raun er auðvelt að ganga úr skugga um að hann sé í gangi. Ef þú ert að keyra windows stýrikerfi þá þarf einfaldlega að fara í „control panel“ og þar í „firewall“. Þar má einfaldlega sjá hvort hann sé on eða off. Við skulum hafa hann on. Ef þú ert að keyra Mac, þá skaltu smella á Apple merkið og fara í „system preferences“, þar ferðu í „security“ og svo í „firewall“. Að hafa eldvegginn í gangi er mjög mikilvægt til að halda óæskilegum aðilum frá tölvunni þinni. Ef þú ert að deila skrám á milli tölva, þá verðurðu að vera viss um að þau gögn séu eingöngu aðgengileg innan netkerfis þíns. Ef þú ert þarft ekki að vera að deila skrám á milli tölva, eða ert ekki viss um hvað þú ert að gera, þá er betra að sleppa því að deila skrám eða hafa samband við einhvern sem getur aðstoðað þig við þetta.
  2. Afritaðu gögnin þín.
    Ef þú lendir í rafmagnstruflunum eða diskurinn í tölvunni þinni hrynur, þá er mikilvægt að hafa afrit. Í dag er einnig mikið um svokallað „ransomware“ sem tekur gögnin á tölvunni þinni í gíslingu. Auðvelt er að taka afrit og setja á usb lykil eða á aðrar geymslur sem ekki eru tengd tölvunni þinni. Gott er að nota þjónustur eins og t.d. OneDrive eða Dropbox.
  3. Haltu þig frá vafasömum vefsíðum.
    Að þekkja vafasamar vefsíður er yfirleitt ekki snúið mál. Hvers kyns „fullorðins“ síður og hacking síður ber að forðast með öllu. Enda eru þær margar fullar af allskonar dóti sem þú þarft ekki í tölvuna þína. Ef þú ert að fara inn á síður eins og t.a.m. bankasíður eða síður þar sem þú ert að láta af hendi kreditkortaupplýsingar, passaðu þá að það sé „https“ í upphafi vefslóðarinnar. Einnig er gott að varast að smella á hlekki í vefpóstum sem þú þekkir ekki. Farðu frekar beint á síðuna sem um ræðir, ef þetta er t.d. vefsíða sem þú hefur verið að versla frá.
  4. Forðastu allt sem er of gott til að vera satt.
    Ef þú sérð tilboð á einhverju sem er 95% afsláttur eða á annan hátt frábært tilboð. Má vel vera að um gervisíðu sé að ræða. Margar síður veiða viðskiptavini inn með frábærum tilboðum til þess eins að fá uppgefið kreditkortanúmer og svo loka þær. Svo er það eitt enn, þú vannst pottþétt ekki í lottóinu sem þú manst ekki eftir að hafa tekið þátt í.
  5. Aldrei gefa upp viðkvæmar upplýsingar.
    Sama á hvaða síðu þú ert, farðu varlega með upplýsingarnar sem þú veitir. Það er vissulega almenn skynsemi að gefa ekki upp kennitölu eða kreditkortanúmer, nema þú treystir vefsíðunni fullkomlega. Ekki stoppa þar. Farðu jafn varlega með upplýsingar sem þú veitir á samskiptasíðum. Að veita mikið af upplýsingum þar, eins og t.d. nafn á gæludýrinu þínu eða mömmu þinni kann að aðstoða óæskilega aðila við að finna út lykilorð þitt að öðrum síðum. Öryggispurningar á vefsíðum biðja oftar en ekki um nafn á gæludýri eða nafni móður þinnar og því kann það að aðstoða við að hleypa öðrum en þér inn.
  6. Forðastu að opna óþekkta tölvupósta
    Aldrei opna tölvupóst frá óþekktum eða grunsamlegum netföngum og aldrei opna viðhengin í þeim tölvupóstum. Þú skalt einnig hafa augun opin gagnvart tölvupóstum frá aðilum sem þú þekkir, það er alltaf sá möguleiki fyrir hendi að sendandinn hafi verið hakkaður og netfangið hans notað til að senda þér óæskilegan hlekk. Ef þú verður var við slíkan póst skaltu umsvifalaust eyða póstinum og láta sendandann vita.