Tónar og Trix munu setja tóninn fyrir sjómannadagshelgina með vortónleikum sínum fimmtudagskvöldið 2. júní. Sungið verður um landið fagra, ástina, minningar sem lifa og auðvitað sjómannslífið! Stjórnandi er sem fyrr, Ása Berglind Hjálmarsdóttir.
Hljómsveit Tóna & Trix að þessu sinni er ekki af verri endanum, en hana skipa rythmapar Þorlákshafnar, þeir ungu og efninlegu Þröstur Ægir Þorsteinsson og Jakob Unnar Sigurðarson sem plokka strengi og slá á trumbur, okkar eini sanni Trixari, Davíð Davíðson leikur á gítar og hljómborðsleikur er í höndum hirðpíanóleikara Tóna & Trix, Tómasar Jónssonar.
Það er gaman að segja frá því að Davíð mun leika á splunkunýjan rafmagnsgítar sem hann var að fjárfesta í og lét þannig gamlan draum rætast.
Knattspyrnufélagið Ægir mun sjá um að selja léttar veitingar í fljótandi formi á barnum og texti við öll lögin verður aðgengilegur á pdf formi á facebook síðu Tóna og Trix á tónleikadag og verður því sérlega aðgengilegt fyrir alla tónleikagesti að syngja með, komi andinn yfir!
Miðaverð er 1500 kr. og er frítt fyrir börn 16 ára og yngri í fylgd með fullorðnum. Tónleikarnir hefjast kl. 20 í Ráðhúsi Ölfuss.