Þór hefur samið við bakvörðinn Tobin Carberry um að leika með liðinu á næstkomandi vetri en sl. tvö ár hefur hann leikið með Hetti frá Egilsstöðum.
Carberry er 190 cm á hæð og skoraði hann 28,2 stig að meðaltali með Hetti sl. vetur en auk þess tók hann 9,3 fráköst, gaf 5,0 stoðsendingar og stal 2,3 boltum í leik.
Einar Árni Jóhannsson þjálfari Þórs segist ánægður með komu Tobin Carberry. „Tobin er sterkur alhliða bakvörður sem að þekkir deildina hér heima vel. Hann lék mjög vel fyrir Hött á þessum tveimur árum sem hann lék með þeim og við teljum hann leikmann sem muni virka vel fyrir okkur. Hann er sterkur á hringinn og öflugur að búa til fyrir samherja sína og er auk þess flottur varnarmaður. Það fer einnig af honum þannig orð að hann sé frábær karakter sem að skiptir miklu máli í þessu. Það ríkir mikil ánægja með að fá þennan flotta íþróttamann til liðs við okkur.“
Carberry sem er væntanlegur í Þorlákshöfn um miðjan ágúst er ánægður með að vera genginn til liðs við Þór. „Ég hef heyrt frábæra hluti um Þór, umgjörðina, stuðningsmennina, starfsfólkið og leikmennina. Ég get ekki beðið eftir því að byrja með Þór.