Nýtt tjaldsvæði í Ölfusi?

camping_olfusMeðfylgjandi mynd var send á netfang Hafnarfrétta í dag og var hún tekin núna í morgunsárið um kl. 07:00.

Myndin er tekin við Eyrarbakkaafleggjara og þar sjást fimm bílar. Tveir þeirra eru litlir sendibílar sem ferðamenn sofa í og svo voru þrír fólksbílar. Á myndina vantar tjöldin sem búið var að tjalda á svæðinu. Svo virðist sem þetta svæði sé að verða vinsælla en tjaldsvæðið í Þorlákshöfn en þar er fullkomið tjaldsvæði og er það aðeins örfáum kílómetrum frá þessum stað.

Töluverð umræða hefur verið að undanförnu um ferðamenn sem gista utan tjaldsvæða og hafa nokkur sveitarfélög, þar á meðal nágrannar okkar í Árborg, bannað gistingu í tjöldum eða ferðavögnum á almannafæri. Samkvæmt þeim breytingum sem Árborg gerði á lögreglusamþykkt sinni þá verður bannað að gista í tjöldum, húsbílum, fellihýsum, hjólhýsum, tjaldvögnum eða öðrum sambærilegum búnaði á almannafæri innan marka sveitarfélagsins, utan sérmerktra svæða.