Við hjá Hafnarfréttum rákumst á ansi skemmtilega uppskriftarbók sem Skátafélagið Melur gaf út árið 1998. Bókin var fjáröflun fyrir félagið sem var mjög virkt á árunum 1997 og fram á tíunda áratuginn.
Það voru Jóhanna Erla og Ragnar Aðalsteinn Magnússon sem endurreistu félagið árið 1997 og var fyrsti fundurinn haldinn 12. september 1997 í stofunni hjá þeim hjónum. Héldu þau uppi góðu og öflugu skátastarfi í Þorlákshöfn allt þar til þau fluttu úr bænum en þá datt skátastarfið niður í Þorlákshöfn.
Fremst í uppskriftarbókinni er ávarp frá félagsforingja félagsins en ávarpið má lesa hér að neðan.
Ávarp félagsforingja
Þeir voru ekki háir í loftinu krakkarnir sem mættu á fyrsta sveitarfundinn heim hjá mér, þann 12. september 1997, en allir voru þeir fullir af áhuga á skátastarfinu.
Eftir fundinn kom í ljós að miklu fleiri höfðu áhuga á að gerast skátar. Það tókst að fá foringja fyrir aðra sveit og hélt hún sinn fyrsta fund 29. September 1997 heima í stofu hjá mér. Enn var bankað og hringt og biðlisti myndast aftur, en mér tókst ekki að fá fleiri fullorðið fólk til að taka að sér foringjastarf. (Vil ég nota þetta tækifæri og auglýsa eftir fólki sem hefur gaman að vinna með börnum og unglingum og getur séð af 1-2 klst. á viku í skátastarf).
Þann 4. október var svo fyrsti fundurinn haldinn í Skátaheimilinu okkar, litla húsinu í Skrúðgarðinum. Þá komu skátar úr Reykjavík í heimsókn með kynningu á skátastarfi. Síðan hafa verið haldnir þar fundir tvisvar í viku og stundum oftar. Þann 2. Nóvember 1997 var formlegur stofnfundur Skátafélagsins MELS haldinn í Félagsheimilinu að viðstöddu fjölmenni. Þá fengum við marga góða gesti víða að, árnaðaróskir og gjafir. Skátahöfðingi Ólafur Ásgeirsson og aðstoðarskátahöfðingi Margrét Tómasdóttir vígðu 22 ylfinga og boðið var upp á kaffi og kökur eftir fundinn. Þá fórum við í „hike“ ferð eftir áramótin og enduðum hana með varðeldi þar sem við grilluðum pylsur og fleira á glóð.
Þann 22. febrúar 1998 var skátavígsla í sal grunnskólans þar sem 20 ylfingar vígðust sem skátar. Um 80 manns voru viðstaddir og þáðu veitingar á eftir. Helgina 2.-3. maí fórum við í skálaferð í Dalakot á Hellisheiði. Allir komu þreyttir og ánægðir heim þrátt fyrir rigninguna.
Dagana 8.-12. júlí fórum við á afmælismót Faxa í Vestmannaeyjum sem var góð upphitum fyrir Landsmót á næsta ári. 15.-23. ágúst sendum við 1. Sveitarforingja í Gilwell skólann á Úlfljótsvatni.
12. september voru 38 ylfingar og skátar innritaðir. Miðast vetrarstarfið nú aðallega við landsmótsundirbúning.
En öll félagsstarfsemi þarfnast fjármagns til að geta haldið uppi öflugu starfi og er þessi bók liður í fjáröflun. Um leið og ég þakka ykkur, sem keyptuð þessa frábæru matreiðslubók, stuðninginn vil ég nóta tækifærið og þakka foreldrum skátanna sérstaklega fyrir að vera alltaf boðnir og búnir að hjálpa okkur og öllum þeim sem stutt hafa við bakið á okkur.
Eitt sinn skáti ávallt skáti.
Með skátakveðju
Jóhanna Erla Ólafsdóttir
Félagsforingi