Geimverkefni á Bergheimum

Geimverkefni bergheimar (2)Hugmyndin að geimverkefninu á Tröllaheimum kviknaði í kjölfar spurningar frá nemanda í hópastarfi. Afhverju er alltaf bjart úti núna á sumrin? Ég fór að reyna að skýra út fyrir nemendunum af hverju og náði í hnattlíkan og myndvarpa (sem var sólin). Úr þessu varð svo stórt verkefni um geiminn.

En hvar byrjar maður á verkefni sem ég sjálf vissi sára lítið um? Jú ég fór á netið og googlaði. Spurningarnar sem við vildum fá svör við voru: Hvað eru pláneturnar margar, stórar, heitar, kaldar, hversu lengi eru þær að fara hring um sólina og er hægt að labba á þeim? Verkefnið byrjaði í maí byrjun og átti að vera þemað þann mánuð, sem teygði sig allan júní líka. Allt hófst þetta á hugarkorti þar sem allt var skrifað sem hópurinn taldi sig vita um geiminn. Gleðin og áhuginn leyndi sér ekki þar sem bros skein úr hverju andliti meðan á þessu stóð. Þegar búið var að segja hvað allar plán11eturnar heita og í hvaða röð þær eru var farið yfir hverja og eina plánetu og spurningunum svarað, sem ákveðið var í upphafi. Eftir umfjöllun um hverja plánetu teiknuðu nemendurnir allir plánetuna sem var til umfjöllunar. Þetta var gert til að festa lögun, stærð og lit enn betur í minnið.

Þegar búið var að fara yfir allar pláneturnar var farið í að föndra þær. Hvert barn dró miða með nafni plánetunnar sem það átti að föndra og var mikill spenningur í gangi. Pláneturnar voru svo gerðar úr fréttablaði og hveitilími. Innan í hverri plánetu var blaðra sem var mismikið blásið í eftir því hversu stór plánetan átti að vera. Í þessum hluta var mikill subbuskapur en kom það ekki að sök því öllum fannst skemmtilegt að „drullumalla“ plánetu eins og einn komst að orði. En nemendurnir voru ekki búnir að fá nóg, þeir vildu gera eitthvað meira, en hvað átti það að vera? Sýning varð fyrir valinu og var farið að æfa lag um geiminn, foreldrum og öðrum nemendum og starfsfólki leikskólans boðið. Sýningin heppnaðist frábærlega og voru litlu snillingarnir frábærir.

Nú, með söknuði, kveðjum við þetta verkefni að sinni en verður tekið upp aftur í vetur með nýjum nemendum. Þá verður einnig hægt að notast við nýja sjónaukann sem foreldrafélagið gaf leikskólanum að gjöf á vorhátíðinni. Þessum nemendum verður boðið að koma og sjá hvernig þetta lýtur allt út í gegnum stjörnusjónauka.

Ingibjörg Aðalsteinsdóttir B.Ed. gráða í leikskólakennarafræðum