Bæjarstjórn Ölfuss hefur ákveðið að auglýsa Rásarhúsið á ný til leigu eða sölu en þetta kemur fram í fundargerð bæjarstjórnar frá 29. september sl.
Eins og Hafnarfréttir greindu frá fyrir nokkru þá voru samningaviðræður í gangi milli sveitarfélagsins og Hendur í höfn. Niðurstaða liggur ekki fyrir í þeim viðræðum og hefur bæjarstjórn því tekið ákvörðun um að auglýsa húsnæðið til leigu eða sölu.
„Leitað verður eftir áhugaverðri starfsemi í húsið sem ætlað er að styðja við atvinnuuppbyggingu í sveitarfélaginu og þá sér í lagi á sviði þjónustu við ferðamenn. Bæjarstjórn áskilur sér rétt til að óska eftir útfærðri viðskiptahugmynd vegna ákvörðunartöku um ráðstöfun hússins.“
Það er ljóst að töluverður áhugi er hjá aðilum til að vera með starfsemi í húsnæðinu en tvö erindi bárust sveitarfélaginu vegna málsins eftir að viðræður hófust við Hendur í höfn. Hvetjum við þá aðila sem og aðra að sækja um eða fjárfesta í húsnæðinu.