Þú hefur áhrif!

danielarnarsson01Hvert einasta atkvæði er mikilvægt og þú hefur áhrif, eitthvað sem er tönnlast á í aðdraganda hverrar einustu kosninga. Svo mikið er tönnlast að setningarnar eru klisjukenndar. En þær eiga enn rétt á sér. Þegar við göngum til kosninga þá erum við, með atkvæði okkar, að gefa fólki völd til að móta stefnu til framtíðar. Hver einasta ríkisstjórn og stjórnarandstaða setur svip sinn á samfélagið með ákvörðunum sínum. Það er ábyrgðarhlutur að kjósa og nýta kosningarétt sinn, því hann kemur aðeins einu sinni á fjögurra ára fresti. Við fáum örfá tækifæri til að hafa áhrif á stjórnvöld og velja okkur þingmenn, sem fara með ákvörðunarvald í okkar umboði.

Að mínu mati ætti umboð okkar að vera sterkara. Fólk ætti að geta kosið og komið beint að fleiri ákvörðunum og þá sérstaklega er varðar nærumhverfið. Íbúafundir, þjóðfundir, opin umræða og rökræðukannanir styrkja lýðræðislegt samfélag sem leiðir af sér betra og réttlátara samfélag. Við eigum öll að vinna að því að skapa virkt samfélag þar sem þau sem vilja beita sér í ákveðnum málum geti það og fái til þess viðeigandi stuðning.

Þegar við ræðum lýðræðismál þá megum við ekki gleyma hlutverki fjölmiðla sem veita stjórnvöldum nauðsynlegt aðhald. Fjölmiðlar eru í því hlutverki að gagnrýna stjórnvöld og kveikja á gagnrýnni hugsun fólksins í landinu. Við vitum að eftir amstur dagsins: vinnu, skóla, fjölskyldulíf og áhugamál þá eru ekki allir sem hafa þann kost að geta fylgst með stjórnmálum hvar og hvenær sem er. Þar komum við að hlutverki fjölmiðla sem geta þá komið efni til skila á hlutlausan og greinargóðan hátt.

Hlutverk stjórnmálahreyfinga eru einnig stór. Stjórnmálahreyfingar eiga að tryggja lýðræðislegt umhverfi og að umræðan fari fram á jafningjagrundvelli. Stjórnmálin eiga að segja satt og rétt frá, rökstyðja mál sitt og koma með stefnu sem hægt er að standa við og vísa í. Hentistefna þegar kemur að stjórnmálum er meingölluð, og hvað þá uppblásin kosningaloforð rétt fyrir kjördag. Að mínu mati er það vísir að gömlum og úreltum stjórnmálunum. Stjórnmálin eiga ekki að mata fólk á innantómum loforðum heldur mynda skýra stefnu og hafa sterka framtíðarsýn.

Lýðræðisumbætur næstu ára verða að byggja á sterkum grunni og stjórnvöld eiga að ljúka þeirri vinnu sem hófst árið 2010 við gerð nýrrar stjórnarskrár. Klárum stjórnarskránna í sem mestri sátt því þær lýðræðisumbætur sem hún býður upp á er mikið framfaraskref. Opnum á lýðræðislega umræðu og þátttöku, tryggjum frjálsa og óháða fjölmiðlun, og klárum nýja stjórnarskrá.

Valdið til fólksins!

Daníel Arnarsson skipar 3. sæti á lista Vinstri grænna í Suðurkjördæmi