Fjölmörg umferðaróhöpp í hálkunni

Mynd: Brunavarnir Árnessýslu

Bílvelta varð rétt fyrir klukkan níu í morgun á Suðurlandsvegi austan við Ingólfshvol í Ölfusi. Afleit færð var á Suðurlandsvegi, krapi og talsverð ofankoma segir á vef Brunavarna Árnessýslu.

Ökumaður bifreiðarinnar missti stjórn á bifreiðinni vegna krapa á veginum og endaði hann utan vegar á toppnum ofan í skurði. Tveir menn voru í bílnum og komust þeir ekki út af sjálfsdáðum vegna legu bifreiðarinnar í skurðinum. Það vildi þeim til happs að ekki var mikið vatn í skurðinum á þessum stað en engu að síður voru þeir blautir og kaldir.

Greiðlega gekk að ná mönnunum út eftir að slökkvilið, lögregla og sjúkraflutningsmenn komu á vettvang. Ökumaður og farþegi voru fluttir með sjúkrabílum á sjúkrahús HSU til nánari skoðunar en ekki er talið að þeir hafi hlotið alvarleg meiðsl.

Þá lokaði lögregla Þrengslavegi í morgun þar sem flutningabifreið þveraði veginn við Skógarhlíðabrekku. Engin slys urðu og var bifreiðin á hjólunum.

Nú í morgun hafa fjölmargir ökumenn misst bifreiðar sínar út af vegum í umdæminu og nokkrar bílveltur hafa komið inn á borð lögreglu. Alvarleg slys hafa þó ekki orðið á fólki.
Lögregla beinir þeim tilmælum til fólks að stilla ökuhraða í hóf og huga að dekkjabúnaði bifreiða.