Kauptilboð í Selvogsbraut 4 eða gamla Rásarhúsið var samþykkt á fundi bæjarstjórnar sem haldinn var í gær, fimmtudaginn 23. febrúar 2017.
Kauptilboðið sem var samþykkt var upp á 33 m.kr. og var frá Finnboga Gylfasyni. Hann stefnir á að skipta húsnæðinu í tvær einingar þar sem annars vegar verður rekin veitingaþjónusta ásamt glervinnustofu og hins vegar lítið gistiheimili/hótel.
Upphæðin verður greidd með verðtryggðu veðskuldabréfi til 5 ára með 25 ára endurgreiðsluferli sem ber 5% vexti. Sveitarfélagið mun veita kaupanda greiðslufrest í sex mánuði frá undirritun samningsins og að þeim tíma loknum skal kaupandi greiða mánaðarlega af veðskuldabréfinu með jöfnum greiðslum.
Málið var ekki samþykkt samhljóða en Guðmundur Oddgeirsson og Ármann Einarsson greiddu á móti. Báðir voru þeir á móti því að sveitarfélagið væri að koma að fjármögnun kaupanna með þessu hætti og telja eðlilegast að kaupandi fjármagni kaupin sjálfur að fullu.
Ármann telur að sveitarfélagið hafi verið á gráu svæði í þessu máli frá byrjun. „Í fyrsta lagi er sveitarfélagið ekki banki. Það er verið að selja SF2014 ehf. kt. 460513-1380 Selvogsbraut 4 (Rásar húsið) á óeðlilegum kjörum. Sveitarfélagið var á mjög gráu svæði þegar húsið var keypt en þetta er alveg til að bíta höfuðið af skömminni. Eðlilega leiðin væri að setja húsið í almennt söluferli hjá fasteignasölu. Þannig væri málið hafið yfir gagnrýni.“
Guðmundur bókaði að hann væri sammála því að eignin yrði seld en hann var ekki „samþykkur því að sveitarfélagið láni kaupverðið að fullu og að greiðslur verði með þeim hætti sem fram kemur í kauptilboðinu. Eðlilegast þykir mér að kaupandinn fjármagni kaupin sjálfur og að uppgjör við Sveitarfélagið Ölfuss vegna sölunnar verði lokið innan árs frá undirritun kaupsamnings.“