Þórsarar mættu í kvöld liði Njarðvíkur í síðustu umferð Dominos deildar karla. Þórsarar öruggir í úrslitakeppnina en þurftu á sigri að halda til að ná sem hæst í töflunni en Njarðvíkingar að berjast fyrir því að komast í úrslitakeppnina og þurftu bráðnauðsynlega á sigri að halda í Þorlákshöfn í kvöld.
Leikurinn fór fjörlega af stað og var fjörugur allt til enda. Þórsarar náðu góðri forystu í fyrsta leikhluta og byggðu á hana í öðrum leikhluta. Ólafur Helgi og Maciek Baginski voru öflugastir í fyrri hálfleik fyrir Þórsara en báðir eru þeir fyrrum leikmenn Njarðvíkur. Gaman var að sjá flottar innkomur hjá varamönnum Þórsara en þeir Halldór Garðar Hermannsson og Grétar Ingi Erlendsson komu öflugir inn af bekknum fyrir Þórsara.
Njarðvíkingar komu öflugir til seinni hálfleiks og fóru að skera á forskot Þórsara og náðu að minnka það niður í 1 stig en alltaf tókst Þórsurum að slíta sig frá þeim. Þórsarar stigu vel á bensíngjöfina í 4.leikhluta og lönduðu 13 stiga sigri 83-70. Flottur sigur Þórsara og ljóst að 5.sætið er þeirra í deildinni og því fá þeir Grindvíkinga í 1.umferð úrslitakeppninnar en þessi lið hafa eldað grátt silfur saman í gegnum tíðina.
Stig Þórsara skiptust svona:
Tobin Carberry 22, Maciek Baginski 16, Ólafur Helgi Jónsson 16, Halldór Garðar Hermannsson 13, Emil Karel Einarsson 6, Grétar Ingi Erlendsson 6, Ragnar Örn Bragason 4.
AÖS