Ægismenn og KFR spiluðu í gær í 2.umferð Lengjubikarsins á Selfossvelli. Ægir tapaði fyrsta leiknum 6-0 gegn sterku liði Vestra en KFR tapaði einnig sínum fyrsta leik í Lengjubikarnum 3-2 gegn Vængjum Júpiters.
Leikurinn í gær fór fjörlega af stað við flottar veðuraðstæður á Selfossvelli og voru Ægismenn mikið sterkari fyrstu mínúturnar. Það tók Ægismenn 9. mínútur að brjóta ísinn gegn Hvolsvellingum en það var heimamaðurinn Ómar Örn Reynisson sem skoraði sitt fyrsta mark fyrir Ægi eftir frábæra stungusendingu. Það leið ekki langt á milli marka en Gunnar Bent Helgason sem spilaði fyrir KFR í fyrra skoraði á 14. mínútu fyrir Ægi og staðan því orðin 2-0.
Á 25. mínútu dróg til tíðinda. Ægismenn fá aukaspyrnu við miðju og koma boltanum inn í teig. Þegar sendingin kemur inn í teig er brotið á Þorkeli Þráinssyni og víti dæmt. Hjörvar Sigurðsson leikmaður KFR braut á og fékk sitt seinna gula spjald og þar af leiðandi rautt, en við þetta æstust leikmenn KFR mikið og töldu dóminn rangann og sló þá einn leikmanna KFR til dómara leiksins og fékk líka rautt spjald. KFR því orðnir 9 eftir á vellinum og Ægir áttu víti. Gunnar Bent fór á punktinn og skoraði mjög örugglega. Staðan 3-0 og Ægismenn tveimur mönnum fleirri.
Ægir bætti við einu marki fyrir hálfleik en Elfar Þór Bragason átti glæsilega stungusendingu á Guðmund Garðar Sigfússon sem setti boltann uppí skeytin og staðan 4-0 í hálfleik.
Ægismenn léku gegn vindi í seinni hálfleik og sköpuðu sér helling af færum og héldu boltanum nánast allan seinni hálfleikinn enda á brattan að sækja fyrir Hvolsvellinga. Ólafur Þór Sveinbjörnsson skoraði 5. mark Ægis eftir fínt samspil á 57.mínútu og Guðmundur Garðar skoraði sitt annað mark í leiknum á 85.mínútu og staðan því 6-0 þegar dómarinn flautaði til leiksloka.
Staðreyndin því sú að um er að ræða stærsta sigur Ægis í Lengjubikarkeppninni frá upphafi. Sá næststærsti var gegn Snörti árið 2008 sem endaði 7-3 fyrir Ægi.
Nokkrir leikmenn léku sína fyrstu leiki fyrir Ægi í gær en þeir eru: Jón Jökull Þráinsson, Oliver Ingvar Gylfason og Gunnar Orri Guðmundsson. Oliver og Gunnar voru að skipta yfir í Ægi en Oliver kemur frá Selfossi og Gunnar kemur frá Fjölni.
Ólafur Þór, Ómar Örn og Gunnar Bent skoruðu sín fyrstu mörk fyrir Ægi í gær og vonum við að þau verði fleiri í framtíðinni.
Næsti leikur Ægis er 25.mars gegn Vængjum Júpiters í Egilshöllinni en í liði Vængjanna eru nokkrir fyrrum Ægismenn og má þar helst nefna Matthías Björnsson, fyrrum fyrirliða Ægis Eyþór Smára Þórbjörnsson, Jóhann Óla Þórbjörnsson og Axel Örn Sæmundsson sem skipti yfir í Vængina á dögunum. Ljóst er að um hörkuleik verður að ræða þar og hvetjum við Þorlákshafnarbúa til að mæta á leikinn og styðja Ægismenn áfram.
Áfram Ægir!