Skrifað undir Unglingalandsmót UMFÍ í Þorlákshöfn 2018

Síðastliðinn föstudag var undirritaður samningur um að 21. Unglingalandsmót UMFÍ verði haldið í Þorlákshöfn um verslunarmannahelgina 2018. Gunnsteinn R. Ómarsson bæjarstjóri Ölfuss undirritaði samninginn ásamt Hauki Valtýssyni, formanni Ungmennafélags Íslands og Guðríði Aadnegard, formanni HSK.

„Aðstaðan í Þorlákshöfn er mjög góð en við erum að bæta hana talsvert. Í fyrra stækkuðum við knattspyrnusvæðið verulega til uppfylla væntingar og þarfir gesta. Næst er það strandblakvöllurinn,“ segir Gunnsteinn á heimasíðu UMFÍ.

Tilkynnt var síðla árs 2015 að Unglingalandsmót UMFÍ árið 2018 verði haldið í Þorlákshöfn. Gunnsteinn segir að undirbúningur fyrir mótið hafi byrjað um leið og gengur hann vel.

Gunnsteinn segir íbúa í Þorlákshöfn búa að mikilli reynslu HSK þegar kemur að skipulagningu stórra viðburða auk þess sem aðstaðan í bænum til íþróttaiðkunar sé frábær eftir Unglingalandsmótið 2008. „Það er komin reynsla á þetta hjá okkur,“ segir Gunnsteinn að lokum.