Vinabæjarmót í Ölfusi 5.-9.júlí

Norrænt vinabæjarmót verður haldið hér í bæ í sumar. Mótið er sameiginlegt verkefni Norræna félagsins og Sveitarfélagsins og verður það haldið dagana 5. til 9. júlí 2017. Er þetta í annað sinn sem við höldum þetta mót en við héldum það í fyrsta sinn sumarið 2007. Mótin eru haldin á tveggja ára fresti til skiptis í viðkomandi löndum.

Vinabæir okkar eru Vimmerby í Svíþjóð, Rygge í Noregi, Skærbæk í Danmörku og Kauhava í Noregi.

Gestir okkar munu mæta síðdegis miðvikudaginn 5. júlí. Mótið er fimmtudaginn, föstudaginn og laugardaginn en síðan heimferð sunnudaginn 09.júlí.

50 gestir hafa boðað komu sína frá þessum 4 vinabæjum. Flestir vilja búa á einkaheimilum, en það er hefð fyrir því að gestir hafi kost á því að gista í heimahúsum. Enn vantar okkur gestgjafa og endilega látið undirritaðan vita ef einhver sér sér fært að taka við einum eða tveimur gestum og leggja þannig sitt af mörkum. Mjög mikilvægt er að við íbúar sveitarfélagsins stöndum okkur í því að hýsa þá gesti sem óska eftir því að vera á einkaheimilum Nokkrir óska eftir því að vera á gistiheimili og munum við koma þeim fyrir á gistiheimilum hér í bæ. Einnig er vel þegið að fá sjálfboðaliða í öll þau ótal störf sem verður að sinna svo allt gangi upp.

Gestgjafar hafa síðan möguleika á að taka þátt í dagskrá mótsins og er þeim einnig boðið í hátíðakvöldverðinn sem er á laugardagskvöldinu, ásamt því að taka þátt í grillveislunni í skrúðgarðinum á föstudagskvöldinu.

Mikil og metnaðarfull dagskrá er í mótun og verður margt skemmtilegt gert með gestum okkar bæði hér innan bæjar og eins verður farið í ferðir út fyrir Ölfusið. Heimsóknir eru áætlaðar í fyrirtæki, verslanir og kaffihús.

Ráðhúsið verður miðstöð vinabæjarmótsins alla dagana, þar tökum við á móti gestum okkar fyrsta kvöldið þar sem boðið verður upp á heita súpu, gögn afhent og gestgjafar taka á móti sínum gestum. Í Ráðhúsinu fara einnig fram fundir, kynningar, hádegisverður og síðan hátíðarkvöldverður.

Við í undirbúningsnefndinni treystum á og vitum að íbúar í sveitarfélaginu muni sameinast um að taka sem best á móti okkar norrænu gestum.

Takið dagana frá, sameinumst um að gera mótið sem fjölbreyttast og skemmtilegt fyrir gesti okkar og okkur sjálf.

F.h. undirbúningsnefndar Sveitarfélagsins Ölfuss og Norræna félagsins,
Halldór Sigurðsson